Svandís: „Vorum vel undirbúin“

14.04.2020 - 20:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að miðað við þær áætlanir sem gerðar voru í upphafi kórónuveirufaraldursins þá telji hún að Íslandi hafi tekist afar vel upp. Það mætti þó ekki fagna sigri of snemma en þetta líti vel út. Hún segir yfirvöld hafa verið vel undirbúin fyrir farsóttina.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.  Tilkynnt var í dag að þann 4. maí yrði hafist handa við að draga úr þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna COVID-19.  Skólahald í leik-og grunnskólum verður áfram með eðlilegum hætti og kennsla hefst að nýju í bæði framhaldsskólum og háskólum. 

Njótum góðs af smæðinni

Svandís sagði heilbrigðiskerfið hafa sýnt hvað í því býr og þar búi mikill mannauðir og þekking sem hafi verið treyst fyrir verkefninu. Landspítalinn hafi sýnt sveigjanleika með því að byggja upp COVID-19 göngudeild þar sem vel sé fylgst með hverjum og einum sjúklingi og miðað við önnur lönd njóti Íslendingar nú góðs af smæðinni. „Bæði hvað varðar utanumhaldið á göngudeildinni en líka hversu vel hefur gengið að rekja smit.“ 

Svandís sagði að miðað við þær áætlanir sem gerðar voru í upphafi; að ná kúrfunni niður þannig að faraldurinn myndi ekki ógna heilbrigðiskerfinu og síðan vernda viðkvæmustu hópana, „þá held ég að okkur hafi hingað til tekist afar vel upp.“ 

Ólíklegustu línur stífluðust

Svandís sagði yfirvöld hafa verið vel undirbúin en þau hafi fundið sterkt fyrir því í upphafi að það hafi ekki bara verið afl í þeirra röðum heldur hafi stuðningur komið frá velgjörðarfólki og fyrirtækjum, bæði innanlands og utan.  Hún segir það vissulega hafa verið sérstakt að finna það hvernig ólíklegustu línur stífluðust þegar eftirspurn eftir ákveðnum gögnum fór að aukast. „En við vorum með góðan grunn og erum núna vel sett.“

Landspítalinn hefur fengið talsvert af gjöfum, meðal annars fimmtán öndunarvélar frá Bandaríkjunum og svo 17 fullkomnar gjörgæsluöndunarvélar frá 14 íslenskum fyrirtækjum.

Allir stilltu saman strengi sína

Svandís sagði að hér hafi verið farin sú leið að öll innkaup hafi farið í gegnum innkaupadeild Landspítalans. Þetta hafi verið gert til að hægt væri að fara yfir þau gögn sem voru í boði og gengið úr skugga um að þau stæðust öll viðmið.  Sést hefði í öðrum löndum, þar sem slík leið var ekki farin, að jafnvel öndunarvélar hefðu ekki komið að gagni.  „Það þurfti að hafa hraðar hendur en vegna smæðar okkar erum við fljót að hreyfa okkur og allskonar hindranir víkja úr vegi. Allt í einu stilla allir strengi sína saman.“

Svandís segir að svo lengi sem veiran sé á kreiki þurfi einhverjar takmarkanir að vera í gildi.  Bæði hún og sóttvarnarlæknir hafi til að mynda verið sammála um að réttast hefði verið að greina frá því strax að allar samkomur yfir 2.000 yrðu bannaðar út ágúst.  Dregið yrði úr öðrum hömlum í skrefum, það fyrsta yrði stigið í maí og annað skref í júní og þannig koll af kolli.  „Eftir sumarið þá sé ég það fyrir mér að hér eftir sem hingað til verði haldið áfram að meta stöðuna, rekja smit og beita bæði sóttkví og einangrun.“

Svandís sagði að þrátt fyrir stöðuna í efnahagskerfinu muni hún tala fyrir því að heilbrigðisþjónustan verði áfram í forgrunni og hún ekki látin mæta niðurskurði. „Við eigum að halda áfram að efla heilbrigðiskerfið og þetta álagspróf sýnir að við megum ekki spara þar. Þetta snýst líka um sjálfsmynd þjóðar, að við séum sjálfum okkur næg og höfum innviði til að þola stór áföll.“  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Kastljós