Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Farsóttin mikið áfall fyrir Grænlendinga

13.04.2020 - 18:28
Nuuk. - Mynd: Oliver Schauf / Wikipedia
Útlit er fyrir algert hrun í ferðaþjónustu á Grænlandi vegna farsóttarinnar og óttast er að mörg fyrirtæki verði gjaldþrota þrátt fyrir umfangsmikla efnahagsráðstafanir grænlensku stjórnarinnar. Eftir uppgang í efnahagslífinu er spáð allt að 8% samdrætti í ár

Ferðabann framlengt

Farsóttin hefur mikil áhrif á Grænland eins og önnur lönd þó að engin ný tilfelli hafi fundist síðustu daga. Ferðabann innanlands og milli Grænlands og annarra landa hefur verið framlengt til loka apríl, en leik- og grunnskólar utan höfuðstaðarins Nuuk taka til starfa á miðvikudaginn 14. apríl. Kim Kielsen, formaður landsstjórnarinnar, tilkynnti þetta fyrir helgi.

Þungt högg fyrir efnahaginn

Ljós er að atvinnulíf landsmanna verður fyrir þungu höggi. Útlit er fyrir algert hrun í ferðaþjónustu og óttast að mörg fyrirtæki verði gjaldþrota þrátt fyrir umfangsmikla efnahagsráðstafanir grænlensku stjórnarinnar. Grænlendingar höfðu annars bundið vonir við uppgang í ferðaþjónustu og góður gangur var í atvinnulífinu.

Samdráttur og atvinnuleysi

Nú er spáð að samdráttur verðu nærri átta prósent á árinu og óttast er að atvinnuleysi vaxi mikið. Opnun nýrra hótela og gististaða hefur verið frestað. Brian Buus Pedersen, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á Grænlandi, segir ástandið grafalvarlegt og óttast að aðstoð stjórnvalda dugi ekki, sérstaklega ef langur tími líður uns samfélagið verður komið í eðlilegt horf á ný.

Vill víðtækt samráð

Múte B. Egede, formaður vinstriflokksins IA, óttast einnig að aðstoð stjórnvalda hrökkvi skammt. Hann hefur hvatt til víðtæks samráðs og póltískrar samtöðu í baráttu við farsóttina og afleiðingar hennar. Egede óttast einnig mikið atvinnuleysi vegna samdráttar í ferðaþjónustu.