Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki er vitað um neitt virkt smit á Grænlandi

13.04.2020 - 11:43
Mynd með færslu
Innaarsuit á Grænlandi. Mynd úr safni.  Mynd: Mette Kristensen - KNR
Ekkert virkt COVID-19 smit er á Grænlandi sem stendur. Þau ellefu sem hafa greinst með sjúkdóminn þar í landi hafa öll náð sér. Landlæknir Grænlands segir þó hættu á að faraldurinn nái sér á strik á ný.

Alls hafa 912 manns farið í skimun við kórónuveirunni á Grænlandi. Á upplýsingafundi landlæknis Grænlands í gær kom fram að fjörutíu bíði enn frétta af niðurstöðu sýnatöku. 

Fyrsta smitið á Grænlandi var greint 16. mars í Nuuk. Fram til 31. mars greindust ellefu smit en fólkið hefur allt náð heilsu á ný. Henrik Hansen, landlæknir Grænlands, sagði á upplýsingafundi um helgina að þrátt fyrir að ekki sé vitað til þess að neinn sé veikur af veirunni nú, sé langt í frá að hægt sé að líta svo á að faraldurinn sé yfirstaðinn, svo geti verið að einhver sé með smit sem ekki er vitað um. Til að mynda hafi komið upp smit á heilbrigðisstofnun í Danmörku í gær. Hinn smitaði hafi verið á leið heim til Grænlands. Það sé ekki útilokað að meðal þeirra örfáu sem komi til Grænlands þessa dagana sé fólk með COVID-19 smit. 

Lokað var fyrir komur útlendinga til Grænlands 13. mars, nema fyrir þá sem eiga þangað brýnt erindi. Bannið verður í gildi út þennan mánuð, hið minnsta.