
Bláhvíta-bandalagið sendi frá sér yfirlýsingu um að Likud-bandalagið hafi dregið fram gamlar kröfur um ráðningar dómara eftir að flokkarnir höfðu komist að munnlegu samkomulagi. Likud segir á móti að Gantz hafi dregið flokk sinn úr viðræðunum á síðustu stundu.
Viðræðufresturinn rennur út á morgun, mánudag. Forsetinn Reuven Rivlin getur veitt Gantz tveggja vikna frest til viðbótar. Eins getur hann fært Netanyahu stjórnarmyndunarkeflið, en hvorugur flokkanna er með hreinan meirihluta á þingi, og þeir eru einu tveir flokkarnir sem geta myndað tveggja flokka stjórn saman.
Ísraelskir fjölmiðlar gera að því skóna að Netanyahu hafi slitið viðræðunum eftir að kannanir sýndu Likud öruggan siguvegara ef gengið yrði til kosninga aftur. Síðasta árið hafa Ísraelsmenn þrisvar haldið þingkosningar, og sama pattstaðan orðið niðurstaðan eftir þær allar. Svo virtist sem þeir Gantz og Netanyahu ætluðu að sættast á þjóðstjórn vegna kórónuveirufaraldursins, svo einhver starfhæf stjórn yrði við völd til þess að takast á við hana.