Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikilvægt að ræða um líf og dauða við fjölskylduna

12.04.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Miklu skiptir að fólk ræði við sína nánustu áður en það verður mjög veikt um hvernig aðstæður það geti ekki lifað við og hvernig það myndi vilja deyja. Þetta segir hjúkrunarfræðingur á Landspítala sem hvetur fjölskyldur um að tala saman um hvað mestu máli skiptir í lífinu. 

Fjórir hjúkrunarfræðingar og læknar birtu 8. apríl á vef Landspítalans ráðleggingar til almennings um mikilvægi innihaldsríks samtals á erfiðum stundum ekki síst á tímum eins og fólk upplifi núna í COVID-19 faraldrinum. 

Ein þeirra, Guðríður K. Þórðardóttir segir heilbrigðisstarfsfólk oft verða vart við það að sjúklingar hafi ekki hugleitt til dæmis hvort það vilji hafna meðferð yrði þeir alvarlega veikir eða lentu í alvarlega slysi. Það sé ekki ríkt í menningunni að fjölskyldan ræði þessi mál.

Förum hringinn og spyrjum við matarborðið

Hún segir að í kórónuveirufaraldrinum séu margir hræddir og mikil óvissa. Besta ráðið til að létta á áhyggjum geti verið að ræða þær opinskátt. 

„Fyrir það fyrsta er að við séum að spyrja hvort annað, bara fara hringinn í kringum borðið og spyrja, hvað skiptir mig mestu máli í lífinu? Við höfum svo gott af því að minna okkur á það. Og hvað er það sem ég gæti alls ekki hugsað mér að lifa án?“ segir Guðríður. 

Þetta eigi til dæmis við um fólk með undirliggjandi sjúkdóma og sérstaklega aldraðir með vaxandi hrumleika, sem kannski horfi fram á að geta ekki búið sjálfstætt heima verði þeir mikið veikir:

„Að hugsa sér þá hvaða færni gæti ég ekki hugsað mér að lifa án eða við hvaða aðstæður gæti ég ekki hugsað mér að lifa.“

Skiptir miklu í úrvinnslu sorgir að óskir hafi verið ræddar

Heilbrigðisstarfsfólk getur skráð óskir fólks í sjúkraskrá. Guðríður segir verið að vinna að því að gera slíkar óskir nákvæmari og svo þyrfti að gera aðganginn miðlægan þannig að hann liggi fyrir til dæmis á heilsuveru.  

„Það sem skiptir mestu máli þegar að mikil veikindi herja á og við heilbrigðisstarfsfólk stöndum frammi fyrir ákvörðunum um hvað eigi að gera og hvað eigi ekki að gera. Þá skiptir svo miklu máli að fólk sé búið að ræða þetta við sína nánustu, að óskir sjúklinga séu ástvinum ljósar. Við sjáum það bara í allri úrvinnslu sorgar og missis að þá skiptir það rosalega miklu máli að fólk sé búið að ræða þetta mál tímanlega, ekki þegar það kemur inn á spítala mikið lasið.“