Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hútar dæma blaðamenn til dauða

12.04.2020 - 08:04
Erlent · Jemen
Mynd með færslu
Liðsmenn Hútí-fylkingarinnar í Jemen. Mynd:
Fjórir blaðamenn voru dæmdir til dauða af dómstóli Húta í Jemen í gær. Lögmaður þeirra segir þá vera dæmda fyrir njósnir. Þeir voru í hópi tíu blaðamanna sem voru handteknir af uppreisnarhreyfingunni, sakaðir um að starfa með óvininum. Þar eiga þeir við hernaðarbandalag sem leitt er af Sádum og hefur stutt stjórnarherinn í Jemen í borgarastríðinu gegn Hútum síðan 2015. 

Hinir sex blaðamennirnir voru einnig dæmdir, meðal annars fyrir að breiða út falsfréttir og sögusagnir til stuðnings hernaðarbandalaginu. Þeim var sleppt úr haldi þar sem dómstóllinn taldi þá búna að sitja af sér dóminn í varðhaldi. Níu mannanna voru handteknir á hóteli í Sana'a í júní árið 2015. Sá tíundi var handtekinn á heimili sínu í ágúst sama ár. 

Abdel-Majeed Sabra, verjandi mannanna, segir Húta hafa bannað verjendum að vera viðstadda réttarhöldin. Dómunum hefur verið áfrýjað. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty sögðu í fyrra að ákærurnar væru upplognar. Þau sögðu blaðamennina hafa verið pyntaða með barsmíðum, þeir hafi ekki fengið vatn svo tímunum skipti og látnir halda á þungum byggingarsteinum í margar klukkustundir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV