Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Breyttu eldgosaviðbragðsáætlun vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Almannavarnir hafa breytt rýmingaráætlun fyrir Grindavík komi til eldgoss. Í ljósi kórónuveirufaraldursins þótti ekki rétt að gera ráð fyrir því að safna öllum þeim á einn stað sem þurfa aðstoð við að yfirgefa bæinn, fari svo að það fari að gjósa.

Veðurstofan hefur mælt ríflega átta þúsund skjálfta á Reykjanesskaga frá því í lok janúar. Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur segir líkur á skjálfta um og rétt yfir 6 að stærð á Reykjanesi hafi aukist. Fólk er beðið að huga að innanstokksmunum.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segir að margir bæjarbúar hafi þegar gert ráðstafanir.

„Auðvitað er þetta ekki eitthvað sem öllum finnst notalegt að geti vofað yfir. En þetta er nokkuð sem búast má við á Reykjanesinu á þessum öflugu jarðhitasvæðum eins og hjá okkur. Þannig að það er nokkuð sem fólk þarf að búast við að geta hugsanlega gerst,“ segir Fannar.

Fannar segir að almannavarnir fundi reglulega og viðbúnaðar- og rýmingaáætlun liggi fyrir. Þær geri ráð fyrir að það þurfi hugsanlega að rýma hluta bæjarins komi til eldgoss.

„Það er ekki langt síðan almannavarnanefndin kom saman og endurbætti viðbúnaðaráætlun vegna kórónuveirunnar. Þeir sem þurfa aðstoð við það að fara úr bænum og verða sóttir, hugmyndin var sú að það væru fjöldahjálpastöðvar og söfnunarstaðir. Í stað þess að fólk komi þar allt saman á einum stað, þá er núna gert ráð fyrir því að það verði skipt hópunum upp í þessu húsnæði. Þannig að þeir sem hugsanlega eru smitaðir og koma úr sóttkví verði ekki settir í sama rými eins og hinir,“ segir Fannar.