Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bakstur orðinn daglegt brauð

12.04.2020 - 21:21
Mynd: RÚV / RÚV
Samkomubannið virðist kalla fram ríka þörf hjá fólki til þess að baka. Bökunarvörur seljast í stórum stíl og ekki bara hér á landi. Geymsluþolnar vörur seldust mest í upphafi samkomubannsins, eins og frystivörur og niðursuðuvörur. Þá jókst sala á handsápu og spritti.

Það mætti halda að uppskriftin að árangursríku samkomubanni sé þrír bollar af hveiti, tveir af sykri, egg og smjör, því landsmenn kaupa nú bökunarvöru í stórum stíl. Fréttastofa fékk upplýsingar frá öllum stærstu matvöruverslunum um hvaða vörur hafa selst mest í kórónuveirufaraldrinum.

Í Bónus seldist næstum því tvöfalt meira af pasta og hrísgrjónum og hveiti og sykri. Og svo var næstum helmingsaukning í sölu á frosnu lambakjöti, fersku nautakjöti og frosnum fiski. Og hreinlætisvörum.

Krónan merkir ákveðna breytingu í kauphegðun hjá fólki eftir að líður á faraldurinn. Í upphafi keypti fólk í meira mæli vörur sem hafa langt geymsluþol, eins og til dæmis frystivörur og þurrmat, en líka niðursuðuvörur, en salan á þeim jókst um 150 prósent. Þar var vinsælast túnfiskur og tómatar í dós, bakaðar baunir og niðursoðinn fiskbúðingur. En eftir því sem leið á faraldurinn fór fólk í auknum mæli að kaupa vörur sem gerðu stemmingu á heimilinu, kerti, servíettur og bakstursvörur.

Það er ekki bara hér á Íslandi sem ástandið hefur kallað fram einhverja frumstæða þörf til þess að baka. Í Bretlandi selst tvöfalt meira af hveiti en áður - og allt að fjórum sinnum fleiri leitir á Google eru tengdar bakstri. Þetta æði má einnig vel sjá á Instagram þar sem eru þrefalt fleiri læk en áður við færslur með myllumerki tengd bakstri. Auðvitað hefur fólk nú meiri tíma og er fast heima með allri fjölskyldunni - og þá er kannski ekkert betra að gera en akkúrat það.

Nettó hefur svipaða sögu að segja, en þar hefur sala á lífrænni vöru og heilsuvöru einnig stóraukist. En það sem er áhugavert í þeirra tölum er að sala á gæludýrafóðri rauk upp sama dag og þríeykið svokallaða, almannavarnateymið, minnti á það á einum af fundunum sínum að fólk myndi nú huga vel að gæludýrunum sínum í faraldrinum.

Það er reyndar áhugavert að sala á sælgæti hefur ekki aukist að sama skapi, því virðist sem þjóðin uppfylli sætindaþörfina með eigin handverki.