Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Konan sagðist vera sérmenntuð í smitsjúkdómum

11.04.2020 - 12:39
Bolungavík Bolungavík   Bolungavík Bolungavík   Bolungavík Bolungavík
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Konan sem starfaði sem bakvörður í Bolungarvík undir fölsku flaggi sagðist hafa hjúkrunarréttindi frá Bretlandi og sérmenntuð í smitsjúkdómum. Sjúkraliði í Bolungarvík segir konuna sem betur fer aldrei hafa stofnað sjúklingum í hættu, en allir hafi fengið sjokk þegar allt komst upp. Sjúkraliðinn starfar á Bergi, og hugsar þar meðal annars um ömmu sína, sem er 103 ára og er elsti covid-sjúklingur landsins.

Agnes Veronika Hauksdóttir, sjúkraliði í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar í Bolungarvík, sat á móti konunni í þétt setinni þyrlu Landhelgisgæslunnar á mánudag þegar þeim var flogið frá Reykjavík til Vestfjarða. 

„Þegar við mættum á flugvöllinn var hún komin, og við fórum í hring og vorum að kynna okkur, hver væri hjúkrunarfræðingur og hver væri sjúkraliði. Hún sagðist vera hjúkrunarfræðingur en væri með áherslu á smitsjúkdóma. Og hafði lært úti,” segir Agnes.  

Dreifði hönskum fyrir þyrluferðina en ekki grímum 

Konan sagði við bakverðina og starfsmenn á vellinum að hún væri með hjúkrunarréttindi frá Bretlandi og sérhæfingu í smitsjúkdómavörnum. Henni var þá falið eins konar leiðtogahlutverk í ferðinni, til dæmis með útbýtingu hlífðarbúnaðar. Hún lét alla í hópnum hafa hanska áður en þær fóru í þyrluna, en ekki grímur. 

„Þetta er náttúrulega svo lítið rými í þyrlunni, þannig að mér fannst mjög spes að vera ekki með grímu,” segir Agnes. „Maður er ekkert að ná að halda mikilli fjarlægð. En hún lét okkur fá grímurnar þegar við lentum á Ísafirði. Þá fyrst áttum við að setja grímurnar upp.” 

„Heppnar að fá svona sprenglærða konu”

Þegar bakvarðasveitin kom til Bolungarvíkur var þeim skipt í hópa. Konan fór á næturvaktir og vann þrjár nætur, en hún var aldrei ein á vakt og starfaði með hjúkrunarfræðinema, en sömuleiðis var alltaf hjúkrunarfræðingur á bakvakt í sama húsi. 

„Hún var alltaf að tala um hvað hún væri rosalega mikið menntuð og maður hugsaði alltaf vá hvað við erum heppnar að fá svona sprenglærða konu sem er búin að mennta sig svona svakalega,” segir Agnes.  

Sjálfsmyndin kom upp um hana

Konan birti síðan sjálfsmynd á samfélagsmiðlum, með hlífðargleraugu og grímu, með titlinum að hún væri að „hjúkkast” í Bolungarvík, á fimmtudagskvöld. Fólk sem þekkti til hennar í Reykjavík hringdi þá vestur og konan var handtekin í gærmorgun. Henni var sleppt síðdegis í gær að lokinni skýrslutöku, henni útvegaður bíll með þeim fyrirmælum að hún væri í einangrun og ætti að fara heim til sín. Niðurstöður úr sýnatökum á bakvörðum bárust í nótt og voru öll sýnin neikvæð.

„Það fengu bara allir sjokk”

Agnes segir að íbúum á Bergi hafi brugðið mjög þegar allt komst upp. 

„Það bara fengu allir sjokk. En sem betur fer var þetta þannig að hún vann aldrei sem hjúkrunarfræðingur. Hún var ekki með lykla að lyfjaskáp og hún tók aldrei ábyrgð sem hjúkrunarfræðingur. Og fólkið á Bergi var aldrei í hættu,” segir hún. „Okkur leið náttúrulega bara hræðilega. Allar sem eru hérna sem eru eftir erum að gera þetta af heilum hug. Við vorum bara rosalega hræddar um að fólk færi að vantreysta okkur og hafa efasemdir, en við höfum fundið fyrir miklum stuðningi og þó að það sé eitt skemmt epli í körfunni þá erum við allar að gera okkar besta.” 

Vistmönnum líður vel og fá góða þjónustu

Agnes segir allt nú að komast í samt horf, bakverðirnir fengu að fara aftur til Bolungarvíkur í morgun eftir að niðurstöður bárust úr sýnatökunum, en þær höfðu þurft að vera í sóttkví á Ísafirði á meðan sýnin voru rannsökuð.  

„Vistmönnunum líður mjög vel þau eru að fá alla þá þjónustu sem þau geta fengið, þannig að okkur líður eins og við séum búin að ná tökum á þessu.” 

Þurfti nýjan dálk á Covid.is fyrir ömmu

Amma Agnesar er íbúi á Bergi, 103 ára gömul. Agnes segir hana furðuhressa, miðað við aðstæður, en hún greindist með covid fyrir átta dögum og er elsti covidsjúklingur landsins. 

„Það þurfti að gera sérdálk á Covid. Það var bara upp í 99, en nú er komið upp í 100 til 109 ára. En svo er ég alltaf að segja henni að það hafi verið kona í Íran sem fékk þetta, 103 ára, og hún komst yfir þetta. Þannig að maður er bara að krossa fingur.”