Drottningarviðtal veldur fjaðrafoki

11.04.2020 - 12:25
Mynd: Politiken / Politiken
Ég er ekki viss um að mannkynið beri ábyrgð á loftslagsbreytingum segir Margrét 2. Danadrottning í viðtali við dagblaðið Politiken í dag. Hún segir ennfremur að ekki sé ástæða til að örvænta. Yfirlýsingar drottningar hafa valdið fjaðrafoki í Danmörku.

Drottningarviðtal í tilefni áttræðisafmælis

Politiken birtir í dag drottningarviðtal, í bókstaflegri merkingu, við Margréti drottningu í tilefni af áttræðisafmæli hennar 16. apríl. Drottningin segir að vissulega hafi mannkynið áhrif á loftslagsbreytingar en hún sé ekki viss um að orsaka breytinganna sé að leita í atferli manna. Jørgen Olesen, loftslagssérfræðingur við Árósarháskóla, sagði í hádegisfréttum danska ríkisútvarpsins, DR, að hugsanlega þekkti drottningin ekki nýjustu rannsóknir í loftslagsmálum.

Tekur afstöðu í nýársræðum

Drottningin hefur á stundum lagt orð í belg í þjóðfélagsumræðunni, einkum í nýársræðum sínum. Sjaldnast hafa þær yfirlýsingar valdið miklum umræðum en að þessu sinni segir Jens Ringberg, fréttaskýrandi DR, eftirtektavert að ummæli hennar væru í andstöðu við afstöðu danskra þingmanna.

Vinsæl og hafin yfir gagnrýni

Drottningin nýtur almennra vinsælda í Danmörku og það heyrir til nærri algerra undantekninga að orð og gerðir hennar sæti gagnrýni. En nú ber svo við að talsmenn tveggja stuðningsflokka ríkisstjórnar Jafnarðarmanna hafa gagnrýnt orð drottningar

Óttast afleiðingar orða drottningar

Mai Villadsen, talsmaður Einingarlistans, Enhedslisten, sagði að hún óttaðist að orð drottningar verði til þess að hluti Dana og hluti þingmanna telji að ekki sé ástæða til skjótra aðgerða í loftslagsmálum.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi