Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynlíf í fjórum köflum og fýrað upp að lokum

Mynd: . / Umslag

Kynlíf í fjórum köflum og fýrað upp að lokum

10.04.2020 - 13:00

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Auður gaf út EP-plötuna Ljós síðasta föstudag sem er það fyrsta sem heyrist frá honum í tæpt ár, eða frá því sumarsmellurinn Enginn eins og þú kom út síðasta vor.

Platan er aðeins átta mínútur og eiginlega konsept-verk, eitt langt sexílag í fjórum köflum, og sannar að Auður er mögulega fyrsti réttmæti RnB-listamaður Íslands, eða í það minnsa sá langbesti í því hingað til. Hann hefur forleikinn strax á fyrstu sekúndunum, kyssi þig með ljósin kveikt, yfir níðþungu og sjóðandi heitu fönkgrúvi og suddalegri rassakáfandi bassalínu. Hann syngur og spilar inn í ákveðna formúlu; RogB kynlífslagið, en gerir það fáránlega vel, „Þú segir til og ég skal fara af stað/má ég kyssa þig milli lappanna/Þú verður að fyrirgefa mér stælana/Er á pínu egótrippi því ég er orðin poppstjarna/Leyfðu mér að elska þig í alla nótt/ódýrt rauðvín oní glasið segðu nóg.“ Í þessari hendingu kristallast samt einn munur á Auði áður og Auði núna, þegar Afsakanir kom út var hann ungur tónlistarmaður að koma úr erfiðum sambandsslitum, í dag er hann líklega stærsta poppstjarna landsins og veður væntanlega í skvísum upp að öxlum.

Auður er með bakgrunn í harðakjarnahljómsveitum og djassgítarleik í FÍH en var farinn að þreifa fyrir sér með nútímalegu RogB-i sem pródúsent og söngvari, en árið 2016 komst hann inn í prógrammið Red Bull Music Academy sem hefur skólað til tónlistarmenn eins og Flying Lotus, Ninu Kravitz, Aloe Blacc og Hudson Mohawke. Auður sótti innblástur til listamanna eins og Drake, Weeknd og Frank Ocean og hans fyrsta sólóskífa, Alone, kom út árið 2017. Þá var hann þegar orðinn eftirsóttur taktsmiður og upptökustjóri og hafði hanterað lög fyrir Emmsjé Gauta, GDRN og fleiri við mjög góðan orðstír, til dæmis lagið Strákarnir. Fyrsta platan hans var mjög gæðaleg en hún greip mig samt ekki alveg nógu fast – mér fannst vanta einhvern herslumun til að aðgreina hann frá áhrifavöldunum.

Samstundis klassík

Afsakanir sem kom út í lok október 2018 gerði hann svo samstundis að stórstjörnu. Hann var ber að ofan á bíræfnu umslaginu og söng í fyrsta sinn á kjarnyrti íslensku, um harkaleg sambandsslit, innlagnir á geðdeild, eiturlyfjaneyslu og tærandi ástarsorg. Tónlistarlega, eins og í umslaginu, sótti hann grimmt í listamenn eins og D’Angelo og þann nýsálarhljóm sem var ríkjandi í framsækinni RogB-tónlist um aldamótin, þegar upptökuteymið Soulquarians réð ríkjum með Questlove, D’Angelo, Q-Tip og J-Dilla í broddi fylkingar. Aðeins örfáum dögum eftir að platan kom út kunni stór hluti áhorfenda á Airwaves-tónleikum Auðar í Listasafninu lögin utanað og sungu með af innlifun, svo mikill hittari var platan.

Síðan þá hefur Auður spilað á endalausum tónleikum, tekist að æsa upp góðborgara, templara og kynlífsfræðinga sem skilja ekki list nema bókstaflega, átt langvinsælasta lag síðasta árs Enginn eins og þú, og spilað með gömlu brýnunum í Mezzoforte. Umslag nýju plötunnar er eins og á Afsökunum allsérstakt og langt frá því lágstemmt: Auður er aftur ber að ofan og nú í hvítum buxum svífandi yfir tölvuteiknuðu vatni, auk þess sem þar má sjá eins konar altari með snák, epli, haus af lambi og hauskúpu á. Það þarf hvorki prest né bókmenntafræðing til lesa í symbolismann og koma auga á ákveðnar biblískar hliðstæðar við Jesú krist frelsara vor á myndinni, grafíkin gæti verið af R Kelly plötu sem kom út um síðustu aldamót, eða mjög kitchy gospel-akti. En Auður verður svo sem seint sakaður um að læðast með veggjum og þó það sé að eiginlega helsmekklaust er ekki hægt að láta umslagið fram hjá sér fara, það öskrar á fólk „hlustaðu á mig!“

Mynd með færslu

Ljós er eins og áður sagði eiginlega eitt langt kynlífslag í fjórum hlutum, eins og titlarnir bera með sér i. ljósinkveikt er forleikurinn, ii. ljósin slökkt er holdlega samræðið, iii. fýrum upp er jónan að kynlífi loknu og iiii. endalaus er endurlit og hugsanir um kvöldið síðar, eins konar samantekt á köflunum þremur sem á undan komu. Það eru hikstandi strengjastungur í ii ljósin slökkt, spólgraðir synþabassadrónar og Bríet á gríðarlega sterka innkomu sem sisslandi sexírödd, „í kvöld þá ertu kúreki.,“ hvíslar hún munúðarfullt. Rapparinn Drengur kíkir svo í heimsókn í Fýrum upp, eins konar óði til kannabisreykinga, og verður gaman að fylgjast með hvort það valdi viðlíka fjaðrafoki og Freðinn gerði á síðasta ári. Lokalagið er svo stutt samantekt þar sem hendingar úr hinum lögunum eru endurunnar.

Tónlistin færir okkur nær

Þetta eru sterk lög og frábærlega pródúseruð, þó þau jafnist þau ekki alveg á við bestu lögin á Afsökunum eins og Siðblindur, Hvítur og tvítugur, Manískur, Freðinn og 2020. Hluti af því skrifast líklega á þá óumflýjanlegu staðreynd að líf tónlistarmannsins hefur umturnast jafn mikið og raun ber vitni, eins konar annars plötu syndróm. Hann er farinn úr mjög slæmri ástarsorg og þunglyndi yfir í að vera stærsta poppstjarna landsins. Þetta er sexítónlist um kynlíf og til að stunda kynlíf við, og eins góð og hún er sem slík, verður hún fyrir mér aldrei jafn áhugaverð og eymdin, eitraða ástarsorgin, eiturlyfjaneyslan og sjálfshatrið á Afsökunum.

Þá varð ég fyrir eilitlum vonbrigðum með lengdina, þegar ég sá tilkynninguna og umslagið á Twitter gerði ég ráð fyrir að um breiðskífu væri að ræða, og átta mínútur eru eiginlega tæplega þröngskífa. En það er gott að heyra í Auði aftur og ég tek það sem býst, ljós er vel heppnuð konspetskífa um kynlíf sem grúvar eins og Sly Stone á góðum degi. Á tímum þar sem tilhugalíf flestra er í lamasessi sækir fólk í nánd með öðrum leiðum, hvort sem það er í gegn um kvikmyndir, klám, bókmenntir eða tónlist. Í tilkynningu sem fylgir skífunni segir Auður að á tímum þegar við megum ekki snerta hvort annað snerti tónlistin okkur sem aldrei fyrr. Þar segir hann líka; „Kveikjum í eldunum. Hellum í rauðvín. Njótum ásta. Dönsum með lokuð augun. Kyssumst með ljósin kveikt. Njótið“ og það er eins góð skilaboð og hver önnur til að enda þennan pistil.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hann þarf ekkert að taka þetta persónulega“

Tónlist

Segir „Freðinn“ til algjörrar fyrirmyndar

Tónlist

Mikið sem dynur á ungum manni

Tónlist

Spólað í torfærum sálarinnar