Ljós er eins og áður sagði eiginlega eitt langt kynlífslag í fjórum hlutum, eins og titlarnir bera með sér i. ljósinkveikt er forleikurinn, ii. ljósin slökkt er holdlega samræðið, iii. fýrum upp er jónan að kynlífi loknu og iiii. endalaus er endurlit og hugsanir um kvöldið síðar, eins konar samantekt á köflunum þremur sem á undan komu. Það eru hikstandi strengjastungur í ii ljósin slökkt, spólgraðir synþabassadrónar og Bríet á gríðarlega sterka innkomu sem sisslandi sexírödd, „í kvöld þá ertu kúreki.,“ hvíslar hún munúðarfullt. Rapparinn Drengur kíkir svo í heimsókn í Fýrum upp, eins konar óði til kannabisreykinga, og verður gaman að fylgjast með hvort það valdi viðlíka fjaðrafoki og Freðinn gerði á síðasta ári. Lokalagið er svo stutt samantekt þar sem hendingar úr hinum lögunum eru endurunnar.
Tónlistin færir okkur nær
Þetta eru sterk lög og frábærlega pródúseruð, þó þau jafnist þau ekki alveg á við bestu lögin á Afsökunum eins og Siðblindur, Hvítur og tvítugur, Manískur, Freðinn og 2020. Hluti af því skrifast líklega á þá óumflýjanlegu staðreynd að líf tónlistarmannsins hefur umturnast jafn mikið og raun ber vitni, eins konar annars plötu syndróm. Hann er farinn úr mjög slæmri ástarsorg og þunglyndi yfir í að vera stærsta poppstjarna landsins. Þetta er sexítónlist um kynlíf og til að stunda kynlíf við, og eins góð og hún er sem slík, verður hún fyrir mér aldrei jafn áhugaverð og eymdin, eitraða ástarsorgin, eiturlyfjaneyslan og sjálfshatrið á Afsökunum.
Þá varð ég fyrir eilitlum vonbrigðum með lengdina, þegar ég sá tilkynninguna og umslagið á Twitter gerði ég ráð fyrir að um breiðskífu væri að ræða, og átta mínútur eru eiginlega tæplega þröngskífa. En það er gott að heyra í Auði aftur og ég tek það sem býst, ljós er vel heppnuð konspetskífa um kynlíf sem grúvar eins og Sly Stone á góðum degi. Á tímum þar sem tilhugalíf flestra er í lamasessi sækir fólk í nánd með öðrum leiðum, hvort sem það er í gegn um kvikmyndir, klám, bókmenntir eða tónlist. Í tilkynningu sem fylgir skífunni segir Auður að á tímum þegar við megum ekki snerta hvort annað snerti tónlistin okkur sem aldrei fyrr. Þar segir hann líka; „Kveikjum í eldunum. Hellum í rauðvín. Njótum ásta. Dönsum með lokuð augun. Kyssumst með ljósin kveikt. Njótið“ og það er eins góð skilaboð og hver önnur til að enda þennan pistil.