Þessi plata kom dálítið aftan að mér síðasta haust. Ég þekkti söngkonuna ekkert en allt í einu var mætt fullburða plata, smekklega frágengin hljóð- og myndrænt séð og flæðið með allra besta móti. Ljúflingslög, í senn popp- og djassskotin. En hver er þetta? Marína Ósk Þórólfsdóttir er djassmenntuð og hefur síðustu sex ár verið í námi í Hollandi og í Svíþjóð. Þessa fyrstu plötu sína vann hún náið með Mikael Mána Ásmundssyni sem leikur á rafgítar á plötunni, auk orgels og klukkuspils. Hann sér og um rafhljóð og kom einnig að útsetningum og hljóðblöndun. Bassaleikarinn hollenski Lito Mabjaia sá um moog- og rafbassaleik og Ásgeir J. Ásgeirsson sá um allan kassagítarleik. Þorvaldur Halldórsson trommuleikari lék með í tveimur lögum og þær María Magnúsdóttir og Rakel Pálsdóttir sungu inn raddir. Platan var tekin upp í Sundlauginni í mars 2019 og Birgir Jón Birgisson sá um upptökur, hljóðblöndun og hljómjöfnun.
Þó að þetta sé fyrsta sólóplata Marínu gáfu hún og Máni út plötuna Beint heim árið 2017 og svo kom út sérdeilis vel heppnuð jólaplata með henni og Stínu Ágústsdóttur fyrir síðustu jól. Höfundurinn lýsir nafni plötunnar sem svo, að það vísi í griðastað. Tónlistin búi yfir mætti til að heila okkur og hlýja okkur sem hún gerir sannarlega. Marína segir tónlistina taka frá söngvaskáldatónlist og djassi, sem er hárrétt. Stundum er smá Spilverk í þessu, ef sú sveit hefði hallað sér að djassi líka.