Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Djössuð ljúflingslög

Mynd með færslu
 Mynd: Sigga Ella - Marína Ósk

Djössuð ljúflingslög

10.04.2020 - 09:00

Höfundar

Athvarf er fyrsta breiðskífa söngkonunnar Marínu Óskar og hún er plata vikunnar á Rás 2 í dymbilvikunni.

Þessi plata kom dálítið aftan að mér síðasta haust. Ég þekkti söngkonuna ekkert en allt í einu var mætt fullburða plata, smekklega frágengin hljóð- og myndrænt séð og flæðið með allra besta móti. Ljúflingslög, í senn popp- og djassskotin. En hver er þetta? Marína Ósk Þórólfsdóttir er djassmenntuð og hefur síðustu sex ár verið í námi í Hollandi og í Svíþjóð. Þessa fyrstu plötu sína vann hún náið með Mikael Mána Ásmundssyni sem leikur á rafgítar á plötunni, auk orgels og klukkuspils. Hann sér og um rafhljóð og kom einnig að útsetningum og hljóðblöndun. Bassaleikarinn hollenski Lito Mabjaia sá um moog- og rafbassaleik og Ásgeir J. Ásgeirsson sá um allan kassagítarleik. Þorvaldur Halldórsson trommuleikari lék með í tveimur lögum og þær María Magnúsdóttir og Rakel Pálsdóttir sungu inn raddir. Platan var tekin upp í Sundlauginni í mars 2019 og Birgir Jón Birgisson sá um upptökur, hljóðblöndun og hljómjöfnun.

Þó að þetta sé fyrsta sólóplata Marínu gáfu hún og Máni út plötuna Beint heim árið 2017 og svo kom út sérdeilis vel heppnuð jólaplata  með henni og Stínu Ágústsdóttur fyrir síðustu jól. Höfundurinn lýsir nafni plötunnar sem svo, að það vísi í griðastað. Tónlistin búi yfir mætti til að heila okkur og hlýja okkur sem hún gerir sannarlega. Marína segir tónlistina taka frá söngvaskáldatónlist og djassi, sem er hárrétt. Stundum er smá Spilverk í þessu, ef sú sveit hefði hallað sér að djassi líka.

Platan rúllar giska vel, og það er hlýr viðarfílingur í gangi. Þess má geta að fyrir utan tvö lög voru öll lögin tekin upp í heilum tökum. Hún hefst á nokkuð magnaðan hátt. Titillagið byrjar með innsogi, líkt og Marína sé smá búin á því og þurfi aðeins að staldra við og hvíla sig – enda fjallar lagið um nákvæmlega það. „Vindurinn“ er síðan léttleikandi smíð, borið uppi af fallegri, blíðri en þó sterkri söngrödd Marínu. Smekklegar bakraddir styðja við. Ég hefði þó sleppt því að keyra það svona upp í lokin. „Ég sit hér í grasinu“ er betra, ljúflingslag sem fær að halda jafnvægi út í gegn. Máni, sem er gítarleikari glúrinn, fær að leika sér aðeins í „Samtal við sólu“ og gerir það vel.

Hæfileg tilraunastarfsemi sem skyggir ekki á sjálft lagið. „Rigning“ er lágvær smíð, nánast bara rödd og gítar og vel heppnað. Marína sýnir í því lagi, og fleirum, að hún er sæmilega natin í lagasmíðadeildinni. Textar fjalla flestir um hvernig tækla beri lífið og verkefni þess, stundum eru þeir full væmnir en stundum bæði einlægir og snotrir. Sum lögin reyna sig við andstæður, lágværir kaflar og svo rosalegir, en slíkar æfingar eru ekki að ná mér.

Best er Marína þegar hún heldur hlutunum einföldum. Sjá t.d. hið firnasterka „Lítil nótt“. Ég er nokk hrifinn af þessari plötu. Átti ekki von á neinu og þó að hnökkrar séu á stangli, eins og venjan er með frumburði, sér maður um leið mikið efni hérna.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Popptónlist

Einlæg og vonbjört

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt