Vél með 17 tonn af lækningabúnaði lent

09.04.2020 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Boeing 767 breiðþota á vegum Icelandair lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 18:30 með 17 tonn af lækningabúnaði og hjúkrunarvörum frá Sjanghæ í Kína. Vörurnar voru pantaðar til landsins vegna COVID-19 faraldursins. Ferðin gekk vel, að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.

Vörurnar voru framleiddar og keyptar í Kína en flutningsmiðlarinn DB Schen­ker sá um kaupin fyrir íslensk stjórnvöld. 

Flugferðin til Sjanghæ tók tólf og hálfan tíma, stoppað var á flugvellinum í Sjanghæ í sjö tíma, og ferðin til baka tók þrettán og hálfan tíma. Áhöfnina skipuðu sex flugmenn, þrír hlaðmenn og tveir flugvirkjar, allir á vegum Icelandair.

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að flugið væri sérstakt fyrir þær sakir að Icelandair hafi ekki áður notað sæti í farþegarými fyrir vörur. Veitt hafi verið sérstök undanþága í þessu tilfelli. Vélinni var flogið tómri til Kína og fraktin sett í farangurshólf og sætaraðir sem voru hólfaðar niður.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi