Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Atvinnuleysi slær öll met í Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. - Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Horfur eru á að fjórði hver maður í Reykjanesbæ verði atvinnulaus þegar líður á apríl. Bæjarstjórinn segir slíkt atvinnuleysi einsdæmi á síðari tímum. Þingmaður kjördæmisins segir að innspýting stjórnvalda í atvinnulífið miðist nær eingöngu við karlastörf.

Atvinnuleysi hefur aukist hratt að undanförnu vegna COVID-19 farsóttarinnar. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðapakka til að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga, öll ferðaþjónusta er í frosti og flugsamgöngur til og frá landinu liggja nánast alveg niðri. Reykjanesbær og reyndar öll Suðurnes hafa orðið illa fyrir barðinu á ástandinu.

„Það er mjög mikið atvinnuleysi hérna núna vegna þess hversu stór flugvöllurinn er í rauninni í atvinnulífinu hér. 40 prósent af veltu Suðurnesja í atvinnulífi og viðskiptum koma frá flugvellinum,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Ríkisstjórnin brást við þessu ástandi í upphafi vikunnar með því að veita fjóra milljarða til Isavia og flýta framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Reiknað er með að þessar aðgerðir skapi allt að 125 störf á mánuði fram á mitt næsta ár.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar á Suðurnesjum, segir að þetta sé ágætt, svo langt sem það nær.

„Það verður til þess að það er hægt að halda áfram með áætlanir sem var búið að gera, en átti að fresta vegna að félagið verður fyrir tekjufalli, og svo á að flýta öðrum framkvæmdum. Auðvitað breytir þetta einhverju, en þetta eru að mestu karlastörf og það þarf að huga að því að konur eru líka atvinnulausar á svæðinu.“

Þá samþykkti Reykjanesbær að auka framkvæmdir á árinu um 460 milljónir króna þannig að í heildina verður tæpum 1200 milljónum varið í framkvæmdir auk tveggja milljarða framkvæmda við Stapaskóla.

Allt að 25 prósenta atvinnuleysi er spáð í bæjarfélaginu í þessum mánuði og það segir Kjartan fordæmislaust hér á landi á síðari tímum.

„Aldrei held ég á Íslandi. Og kannski í einhverjum risaheimskreppum á síðustu öld úti í heimi en aldrei hér,“ segir Kjartan Már.

Ástandið er svipað víða á Suðurnesjum. Í Suðurnesjabæ, Sandgerði og Garði, búa rúmlega 2.000 manns á vinnualdri og þar hefur farsóttin haft mikil áhrif að sögn Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra í Suðurnesjabæ.

„Ég gæti trúað því að það væri eitthvað á annað hundrað manns hér í þessu sveitarfélagi sem hafa misst störfin að hluta eða öllu leyti.“

Það má segja að Reykjanesbær og nágrannasveitarfélög hafi farið í gegnum óvenjumiklar sveiflur í atvinnulífi frá aldamótum, vegna mikilvægis Keflavíkurflugvallar. Herinn fór fyrir 15 árum, svo reið fjármálakreppan yfir heiminn, atvinnulífið rétti svo verulega úr kútnum fyrir um áratug með ferðamannasprengjunni, en heimsfaraldurinn hefur enn og aftur snúið við þróuninni.

En Kjartan Már er bjartsýnn.

„Við ætlum að komast í gegnum þetta líka. Það mun taka tíma. Við sjáum að þetta sumar núna er sennilega úti hvað varðar ferðaþjónustu og mikla flugumferð um völlinn, en það kemur dagur eftir þennan dag. Við erum bara bjartsýn á að okkur takist að leysa það.“

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV