Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt að hálfur milljarður stefnir í fátækt

09.04.2020 - 07:44
epa08351362 A general view of the empty highway that joins Bilbao and Santander, in Bilbao, Basque Country, northern Spain, 08 April 2020. Spain faces the 25th consecutive day of mandatory home confinement in a bid to slow down the spread of the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/LUIS TEJIDO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Alþjóðlegu hjálparsamtökin Oxfam hvetja þjóðarleiðtoga heimsins til þess að að samþykkja 2.500 milljarða bandaríkjadala björgunarpakka til þess að koma í veg fyrir að hálfur milljarður manna lendi í klóm fátæktar vegna kórónuveirufaraldursins.

Samtökin vara við því að höggið sem faraldurinn veiti hagkerfinu eigi eftir að færa baráttuna gegn fátækt aftur um allt að þrjá áratugi á svæðum á borð við Afríku og Miðausturlönd. 

Oxfam vísar til rannsóknar King's College í Lundúnum og ríkisháskólans í Ástralíu þar sem talið er að allt að hálfur milljarður manna lendi undir fátæktarmörkum vegna faraldursins. Neyðar-efnahagsbjörgunarpakki fyrir alla gæti aðstoðað fátækari ríki við að veita þeim sem missa tekjur sínar styrki og til þess að hjálpa litlum fyrirtækjum. Meðal aðgerða sem Oxfam mælir með er að afskrifa um þúsund milljarða bandaríkjadala lánagreiðslur sem þróunarríki eiga að inna af hendi á árinu. Að auki leggja samtökin til að stofnaður verði alþjóðlegur varasjóður með að minnsta kosti þúsund milljarða dala stofngreiðslu.

AFP fréttastofan hefur eftir Jose Maria Vera, starfandi framkvæmdastjóra Oxfam, að fjármálaráðherrar G20 ríkja, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn verði að veita þróunarríkjum fjárstyrki sem allra fyrst til þess að bjarga fátækum og viðkvæmum samfélögum.  

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV