Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja rannsókn á aðgerðum lögreglu vegna hnúfubaks

08.04.2020 - 18:53
Mynd með færslu
Hnúfubakur, mynd úr safni.  Mynd: Benedikt Sigurðsson
Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa óskað eftir því við umhverfisráðherra að gerð verði óháð rannsókn á því hvernig sú ákvörðun var tekin að skjóta með riffli og haglabyssu á hnúfubak í Skagafirði í nóvember 2018. Fjallað var um málið í Kveik í gær. Dýrið var fast í veiðarfærum, talið var að það væri hrefna sem er mun smærra dýr, og skutu lögreglumenn á það í nokkra klukkutíma en tókst ekki að aflífa það. Hnúfubakar eru friðaðir.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að það veki furðu að ekki hafi verið reynt að skera dýrið úr netinu til að bjarga því áður en byrjað var að skjóta á það. „Sú vanþekking sem birtist í því að eftir að skothríðin hófst að þá töldu lögreglumenn sig vera að skjóta á hrefnu en ekki hnúfubak segir meira en mörg orð um hve misráðin og illa ígrunduð aðgerðin var,“ segir í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í dag. Brýnt sé að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki og því verði að fá úr því skorið hvernig þetta hafi getað gerst. 

Edda Elísabet Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur, sagði í Kveik í gær að hún væri ekki undrandi á því að ekki hafi tekist að aflífa dýrið. Allt mæli gegn því að nota slík skotvopn á svo stóra skepnu, sérstaklega við þessar aðstæður. 

Í lögum um dýravelferð er sérstaklega fjallað um bann við því að ofbjóða dýri, yfirgefa það bjargarlaust eða misbjóða því á sambærilegan hátt. Þá segir í lögunum að skylt sé að aðstoða veik eða særð dýr, og að sé nauðsynlegt að aflífa dýr skuli það gert með skjótum og sársaukalausum hætti, og forðast að valda því hræðslu eða óþarfa þjáningum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir