Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Töldu fyrirvara skynsamlegan á kjarasamningi Rio Tinto

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Talið var skynsamlegt að hafa fyrirvara á kjarasamningi við starfsmenn Rio Tinto þess efnis að hann sé bundinn því skilyrði að nýr raforkusamningur takist við Landsvirkjun. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Í kjarasamningnum er kveðið á um að nýr kjarasamningur falli úr gildi 30. júní ef viðræður Rio Tinto við Landsvirkjun um núgildandi raforkusamning milli fyrirækjanna skilar ekki árangri. Forstjóri Landsvirkjunar furðaði sig á því í gær að Rio Tinto hafi skilyrt kjarasamninga við starfsmenn sína og formaður verkalýðsfélagsins Hlífar sagði Rio Tinto að ákveðnu leyti beita starfsmönnum fyrir sig í baráttu fyrir betri raforkusamning. 

Halldór Benjamín segir að vegna þess að Rio Tinto hafi lagst í heildarendurskoðun á rekstri verksmiðjunnar sá félagið sér ekki fært að gera samning til lengri tíma en til loka júní á þessu ári. 

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd

Hægt að vísa strax til ríkissáttasemjara

„Sá samningur tekur gildi óháð öllum skilyrðum. Samningurinn framlengist svo sjálfkrafa, að ákveðnu skilyrði uppfylltu, án þess að til frekari viðræðna komi. Vegna þessara óvenjulegu aðstæðna var samhliða samið um að ef viðaukinn tekur ekki gildi er hægt að vísa málinu strax til ríkissáttasemjara,“ segir Halldór Benjamín.

Hann segir að beggja vegna samningaborðsins hafi verið talið skynsamlegast að hafa þann fyrirvara á að viðaukinn tæki gildi þegar endurskoðun reksturs verksmiðjunnar hefði farið fram. 
 
„Þegar samningarnar voru undirritaðir hafði þegar verið búið að boða víðtækar verkfallsaðgerðir sem hefðu haft mikil áhrif á rekstur verksmiðjunnar. Við þá stöðu bættist svo sú óvissa sem alheimsfaraldur COVID 19 hefur í för með sér,“ segir Halldór Benjamín.

Forsvarsmenn álversins í Straumsvík hafa ekki gefið kost á viðtali.