Staðfest að fuglarnir voru ataðir í svartolíu

08.04.2020 - 22:50
Mynd með færslu
10 af þessum 14 dauðu æðarfuglum og skarfi voru olíublautir og fundust í mynni Vestmannaeyjahafnar. Sýni úr þeim verða send í greiningu eftir páska.  Mynd: Náttúrustofa Suðurlands
Niðurstöður bárust í dag úr greiningu á fjöðrum olíublautra fugla sem fundust á Suðurlandi í febrúar. „Sýnin staðfesta að þetta er svartolía,“ segir Sigurrós Friðriksdóttir teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun. „Við erum því miður engu nær um hver er uppruni olíunnar.“

Sigurrós segir að tekist hafi að fanga fjórar langvíur í Dyrhólaey og þær sendar í Húsdýragarðinn í Reykjavík til aðhlynningar. Sýni af fjöðrum þeirra voru send til rannsóknastofu Háskóla Íslands. Hún segir að líklegast þyki að olían komi frá skipi við strönd Íslands. Nú sé verið að íhuga næstu skref, eins og að skoða betur hvaða skipsflök eru á svæðinu og hvort olía komi frá þeim upp á yfirborðið. 

Hægur og kvalafullur dauðdagi

Grútugir fuglar hafa einnig fundist í höfninni í Vestmannaeyjum og suður af. Erpur Snær Hansen líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, segir að yfir tíu langvíur séu í hreinsun þar. „Það er búið að hreinsa þær og erfitt að fá þær til að verða aftur vatnsheldar.“ Töluvert hafi fundist af dauðum fugli innan hafnar, í mynni hennar og úti í hrauni. „Þetta er hægur og kvalafullur dauðdagi,“ segir hann. Fuglarnir reyni að komast í land því lendi þeir í olíu langt frá landi þá drukkni þeir. 

„Þetta er viðvarandi vandamál innan hafnar og meðfram ströndinni. Það þyrfti að labba Landeyjarhöfn og skoða þetta. Mig grunar að þetta sé stærra vandamál, að við séum að sjá bara brot af þessu.“

Sigurrós segir að unnið verði úr niðurstöðum úr sýnatökunni strax eftir páska. „Við eigum von á sýni af olíublautum fjöðrum frá Vestmannaeyjum á næstunni. Þau koma í pósti og verða strax send til greiningar. Niðurstöðurnar verða síðan bornar saman við hin sýnin til að sjá hvort þetta sé sama olían.“

Aðspurð segir hún að tugir fugla hafi orðið fyrir olíublautir. „Við fáum ekki tilkynningar um alla fugla en þeir eru að minnsta kosti 60.“  Algengustu tegundirnar séu langvía og æðarfugl. 

Líklegast að olían komi úr skipsflaki

Hún segir að Umhverfisstofnun fylgist áfram með gervitunglamyndum frá EMSA, siglinga- og öryggisstofnun Evrópu, en engin olía sé greinanleg á yfirborði sjávar. Sigurrós segir að Landhelgisgæslan hafi kannað möguleika á olíumengun þegar þyrlunum hefur verið flogið þarna yfir en ekkert séð. Flugvél gæslunnar sé komin aftur í notkun og búið að fara í eitt flug en engin olía sést. Sigurrós segir að vonast sé til þess að hægt verði að nota sérstaka ratsjá í flugvélinni sem gefi möguleika á því að finna olíu undir yfirborðinu.

Svartolía sé enn notuð í skipum en takmarkanir séu á brennisteinsinnihaldi í svartolíu samkvæmt breyttri reglugerð. „Það eru strangari reglur sem gilda í landhelginni en alþjóðlega. Það er ekki bannað að nota svartolíu og skip geta notað olíu með hærra brennisteinsinnihaldi ef þau eru með hreinsivirki (e. scrubber) um borð,“ segir hún. 

„Líklegasta skýringin er að þetta sé ekki að koma frá skipi sem hafi losað olíu í sjóinn heldur skipsflaki sem er að tærast og brotna meira niður,“ segir Sigurrós. „Það er ekkert sem hægt er að staðfesta núna, eins og staðan er í dag.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi