RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Páskadagskráin á RÚV

Mynd: RÚV / RÚV
Að vanda er boðið upp á fjölbreytta og vandaða dagskrá á öllum miðlum RÚV yfir hátíðisdagana. Nýtt íslenskt efni og skemmtun fyrir alla fjölskylduna verður í öndvegi.

Í sjónvarpsdagskrá er lögð rík áhersla á nýtt, íslenskt efni og efni fyrir fjölskylduna.

Við frumsýnum nýja sjónvarpsmynd, Sveinsstykki, sem byggð er á samnefndum einleik Þorvalds Þorsteinssonar með Arnar Jónsson í aðalhlutverki. Einnig sjónvarpsútgáfu í tveimur hlutum af spennumyndinni vinsælu Ég man þig, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Þá verða tvær íslenskar úrvalsmyndir frumsýndar í sjónvarpi, Héraðið og Goðheimar, ásamt nýrri íslenskri heimildarmynd í tveimur þáttum þar sem rakin er saga Þursaflokksins.

Sérvalið efni fyrir alla fjölskylduna er á dagskrá frá morgni til kvölds um hátíðina, þar á meðal Múmínálfarnir, Goðheimar, Leitin að Dóru, Aulinn ég 2 og Saman að eilífu (A Dogs Journey). Skemmtiþátturinn Söguspilið í umsjá Sigynjar Blöndal hefur göngu sína á ný á páskadag. Þar taka krakkar þátt í leik sem reynir á íslenskukunnáttu og þekkingu á barnabókmenntum. Sóttbarnalög Hljómskálans er ný tónlistarþáttaröð þar sem landsþekktir söngvarar syngja nokkur af kostulegustu barna- og grínlögum íslenskrar tónlistarsögu.

Þá er ýmislegt upplífgandi og hjartastyrkjandi á dagskrá svo sem 70 ára afmælistónleikar Sinfóníunnar, Leikhúsveisla heima í stofu, Heima í Hörpu, tónleikar Todmobile og Midge Ure, páskamessa í Dómkirkjunni, hugvekj forseta Íslands og kyrrðarstund með biskupi, forsætisráðherra og fleirum.

Að venju er páskahám í spilaranum og þar verða frumsýndar heilar þáttaraðir með áherslu á leikið innlent og norrænt efni, heimildar- og fæðsluefni

Rás 1 forvitnileg að vanda um páskana

Guðni Tómasson sækir Víking Heiðar Ólafsson heim og ræðir við hann um nýjustu hljómplötu hans með verkum frönsku tónskáldanna Debussy og Rameau. Við kynnumst líka rússneska tónskáldinu Sofiu Gubaidulinu í þáttunum Í átt að sannleikanum sem eru í umsjón Páls Ragnars Pálssonar.  Þá veltum við fyrir okkur hrikalegri ægifegurð fjalla í þáttunum Fjöllin hafa vakað, lítum yfir feril Guðrúnar Evu Mínervudóttur, fáum innsýn í listaheim Zürich og fræðumst um fornsögu Basel í þáttunum Borgarmyndir. Við pælum í hvað verður um okkur þegar við deyjum í þáttunum Dauðans vissa, og skoðum samspil erfða og umhverfis í þáttunum Hver er ég og hvers vegna? Elísabet Indra Ragnarsdóttir færir okkur þátt um Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, heiðursverðlaunahafa Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2020. Og við fáum að vita allt um hannyrðapönkara í þáttunum Hannyrðapönk.

Ferðalög er nýtt útvarpsleikrit í fjórum hlutum eftir Jón Gnarr sem flutt verður um páskana. Með aðalhlutverk fara Eggert Þorleifsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Þórey Birgisdóttir. Þættirnir Ljósufjöll fjalla um flugslysið í Ljósufjöllum á Snæfellsnesi í apríl 1986. Fimm fórust en tveimur var bjargað eftir tíu og hálfrar klukkustundar bið í flakinu. Neðanmáls eru heimildar- og skemmtiþættir um áhugavert lífshlaup fólks og dýra sem fáir hafa heyrt um; einstaklinga sem hefðu átt að fá athygli en hafa gleymst á spássíum sögunnar. Atvik í lífi steinbryggju er þáttur í umsjón Unu Margrétar Jónsdóttur um gömlu steinbryggjuna sem lá áratugum saman undir Tryggvagötu en kom svo í ljós að hluta við gatnaframkvæmdir árið 2018.

Tónlistin verður fyrirferðarmikil á Rás 1 um páskana. Magga Stína flytur lög og ljóð Megasar í hljóðritun frá tónleikum í Eldborg. Við fáum einnig hljóðritun frá tónleikum sem haldnir voru í Hallgrímskirkju 4. mars. Þar var Jóhannesarpassía Johanns Sebastians Bachs flutt á einstæðan hátt af þremur tónlistarmönnum með þátttöku tónleikagesta. Páskaóperan í ár er La Cenerentola; Öskubuska, eftir Gioachino Rossini í flutningi Metropolitan óperunnar í New York. Þetta og margt fleira á dagskrá Rásar 1 um páskana. 

Mynd: rúv / rúv

Að vanda býður Rás 2 upp á fjölbreytta tónlistar- og skemmtidagskrá alla páskana

Bergsson og Blöndal ætla að halda til í útvarpshúsinu alla hátíðisdagana og vakna með hlustendum. Heilahristingur er nýr, léttur og skemmtilegur spurningaþáttur þar sem tvö lið tveggja keppenda svara spurningum um allt milli himins og jarðar. Þátturinn er í umsjón Jóhanns Alfreðs og verður á dagskrá frá skírdegi fram á annan í páskum strax að loknum hádegisfréttum.

Á skírdag ræða Andri Freyr Viðarsson og Guðmundur Pálsson við ferðalanga úr ótrúlegri ferð Hljómsveitar Björgvins Halldórssonar til Sovétríkjanna árið 1982 í þættinum Sendiherrar vestrænnar menningar. Í þættinum er rætt við meðlimi hljómsveitarinnar sem segja frá ótrúlegum ævintýrum austan járntjaldsins. Þar koma meðal annars við sögu þjónn sem drap hund, hænur sem voru soðnar í flugfél, slagsmál hljómsveitarmeðlima og ýmislegt fleira. Þórður Helgi, eða Doddi litli, sér svo um að senda hlustendur í góðu skapi inn í nóttina í þættinum Miðnæturhanastél Dodda litla þar sem hann spilar sérvalda partýtónlist síðustu 40 ára. Þátturinn er á dagskrá eftir tíufréttir á skírdag sem og föstudaginn langa. 

Á föstudaginn mun Karl Hallgrímsson fræða hlustendur um munnhörpur og mandólín og þátt hljóðfærana í íslenskri dægurtónlist. Hann ræðir við hljóðfæraleikara sem spila á þessi hljóðfæri og spilar lög þar sem þau koma við sögu. Aldrei fór ég suður er á dagskrá á laugardagskvöld eftir fréttir en þó með öðru sniðu en undanfarin ár. Fjölmargt tónlistarfólk hefur tekið upp sín vinsælustu lög í stofunni heima hjá sér í anda hátíðarinnar og verður brot af því besta flott í þættinum sem Matthías Már Magnússon hefur umsjón með.

Á páskasunnudag er röðin kominn að Tvíhöfða sem bjóða hlustendum upp á sérstakan hátíðarþátt strax að loknu ávarpi forsætisráðherra. Á annan í páskum býður Gígja Hólmgeirsdóttir hlustendum í ferðalag hringinn í kringum landið, þar sem hringt verður í fólk um allt land og forvitnast hvernig var að ferðast innanhúss yfir páskana. Klukkan fjögur er svo röðin komin að Af fingrum fram, en Jón Ólafsson mun þar spila brot af því besta úr spjalltónleikaröðinni sem hefur gengið fyrir fullum sal í Salnum í 11 ár. Páskadagskránni lýkur svo um kvöldið með þættinum Gott kvöld með Óla Palla. 

Mynd með færslu
 Mynd:
08.04.2020 kl.09:54
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
Birt undir: Í umræðunni, Páskadagskrá, Páskadagskrá RÚV, Páskar, rúv