Nær allir leiðsögumenn án atvinnu

Mynd með færslu
Pétur Gauti Valgeirsson, formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna. Mynd: aðsend mynd
Nær allir leiðsögumenn landsins eru nú án atvinnu og segir Pétur Gauti Valgeirsson, formaður Leiðsagnar stéttarfélags leiðsögumanna, að flestir falli milli skips og bryggju þegar kemur að úrræðum stjórnvalda við atvinnuleysi.

„Það er grafalvarlegt ástand hjá mörgum,“ segir Pétur Gauti um stöðuna hjá leiðsögumönnum í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir vegna kórónuveirufaraldursins. Leiðsögumenn gera ráðningarsamninga og hafa því greitt skatta líkt og annað launafólk og því hélt fólk að það myndi standa ágætlega ef þrengingar sem þessar myndu ríða yfir, segir hann. Raunin sé aftur á móti sú að flestir séu lausráðnir í stuttan tíma í senn og ráðningarsamningar hafi verið búnir og fólk hafi því ekki á rétt á uppsagnarfresti og skertu starfshlutfalli og atvinnuleysisbótum á móti. Aðeins örfáir leiðsögumenn hafi fallið undir það úrræði.

Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Leiðsögumenn vinna oft í törnum, að sögn Péturs, og jafnvel hjá nokkrum fyrirtækjum og núna þegar þeir sæki um atvinnuleysisbætur sé miðað við laun síðustu sex mánuði og það komi mjög illa út fyrir þá. Oft sé rólegt um jólin og kínverskir ferðamenn hafi hætt að koma í janúar. Rólegt hafi verið að gera í febrúar og nær ekkert í mars. Þegar búið sé að reikna unna tíma síðustu sex mánuði eigi fólk í mörgum tilvikum aðeins rétt á nokkrum tugum þúsunda í atvinnuleysisbætur á mánuði. Pétur telur að eðlilegra sé að miða við laun síðustu tólf mánuði.

Hafa vakið athygli á stöðunni

Pétur segir að athygli ASÍ, Vinnumálastofnunar og stjórnmálamanna hafi verið vakin á málinu en að hann viti ekki hvort eða hvenær komið verði til móts við leiðsögumenn með aðgerðum sem henti þeirra starfsumhverfi. Það sé skilningur á málinu hjá Vinnumálastofnun en að þar verði að fara eftir reglum. „Kerfið er mjög erfitt og þungt í vöfum og við pössum ekki inn í það. Ef þetta á að vera öryggisnet þá eru möskvarnir ekki nógu þéttir til að grípa leiðsögumenn.“

Hann tekur dæmi um leiðsögumann sem hann þekki sem eigi maka sem sé kennari. Þau hafi haft álíka mikið í árslaun í fyrra. Leiðsögumaðurinn fái hins vegar engan uppsagnarfrest greiddan núna og sáralítið í atvinnuleysisbætur. Ef kennarinn myndi aftur á móti missa vinnuna fengi hann greiddan uppsagnarfrest og mun hærri atvinnuleysisbætur.

Tæplega eitt þúsund manns greiða stéttarfélagsgjöld í Leiðsögn á hverju ári og sífellt stærri hópur hefur leiðsögumannsstarfið að fullu starfi. „Margir sáu fyrir sér vertíð um páskana og í sumar en nú sjá menn fram á tekjutap upp á mörg hundruð þúsunda og enga innkomu,“ segir Pétur.

Mjög erfið fjárhagsstaða hjá mörgum leiðsögumönnum

Hvað framtíðina varðar telur Pétur að margir velti því fyrir sér hvort það sé þess virði að taka áhættu sem þessa varðandi lífsviðurværi sitt og starfa sem leiðsögumenn. Hjá mörgum, til dæmis einstæðum foreldrum, sé staðan mjög slæm núna. Lítil vinna fram undan næstu mánuði og fólk fái aðeins nokkra tugi þúsunda í atvinnuleysisbætur á mánuði. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi