Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innflutningur raskast minna en ætla mætti

08.04.2020 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: LHG
Stærstu flutningsfyrirtækin á Íslandi, hafa fækkað skipum í rekstri og breytt flutningsleiðum vegna COVID-19. Heildsalar segjast ekki verða varir við skort eða truflanir í innflutningi, hingað komi öll aðföng og matvæli sem hafi verið pöntuð, einu hnökrarnir tengist kannski klósettpappír - en það skrifast ekki á skort heldur aukna eftirspurn. 

Hoffell kom til Sauðárkróks í morgun, siglir svo áfram hringinn um landið og kemur að höfn í Hull í Bretlandi á Annan í páskum. Pictor J er á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja, þaðan liggur leiðin til Færeyja.  Flutningaskipin sigla enn fram og til baka, hægfara en pottþétt og með þeim meginþorri innfluttra matvæla. Enn sem komið er hefur innflutningur gengið svo til hnökralaust. 

Óheft flæði frá Ítalíu

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir minna um truflanir í aðfangakeðjunni en ætla mætti. Það vinni öll lönd að því að halda keðjunni gangandi. Ölgerðin fær öll aðföng til framleiðslunnar hér að utan; pappa, miða og kassa. Það er meira að segja óheft flæði frá Ítalíu sem hefur orðið illa úti í faraldrinum, þaðan koma til dæmis stáltappar á glerflöskur sem fyllt er á hér. Nokkrar breytingar hafa orðið á eftirspurn. Fólk kaupir meira af kassavíni, svokölluðum beljum, enda eiga fáir leið um Fríhöfnina og lítið keypt af áfengi á veitingastöðum. Svo er það salernispappírinn, mikil og óvænt sala á honum setti þrýsting á allt kerfið en Andri segir birgja hafa staðið sig frábærlega í að takast á við það. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Ruv
Átöppun í Ölgerðinni.

Andri segir birgjana úti halda starfsfólki Ölgerðarinnar vel upplýstu, samskiptin séu meiri en áður. Það sé sérstaklega gaman að spjalla við vínbirgja á Ítalíu, það vefjist ekki fyrir Ítölum að skilgreina vínframleiðendur sem matvælafyrirtæki sem þurfi að halda úti órofnum rekstri. 

Gert að auka öryggisbirgðir

Magnús Óli Ólason, forstjóri Innnes, hefur sömu sögu að segja og Andri. Heilt yfir hafi gengið mjög vel, aðföng berist nánast snurðulaust bara einstaka tilvik þar sem sendingum seinkaði um einhverja daga. Eitt skrifaðist á það að ítalskur birgi átti erfitt með að útvega bílstjóra.

Mynd með færslu
 Mynd: Innnes mynd: Innnes/Facebook
Innnes, fossaleyni.

Innnes var gert að auka öryggisbirgðir í almannavarnaskyni, kaupa sérstaklega mikið af ákveðnum vörum, þessum sem var að finna á  innkaupalista almannavarna. Vörhús fyrirtækisins víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu eru vel full og skipafélögin útvega viðbótarpláss.

Magnús segir birgðastöðuna heilt yfir mjög góða og nóg á leiðinni. Hann segir neytendur víða um heim hafa brugðist við með svipuðum hætti þegar faraldurinn skall á, birgt sig upp. Í Bretlandi hafi heilu hillurnar tæmst en hér hafi kaupmenn staðið sig gríðarlega vel í að fylla á hillurnar. 

epa08342765 People queue up keeping social distancing to enter a supermarket in Barcelona, Spain, 04 April 2020. Spain faces the 21th consecutive day of mandatory home confinement in a bid to slow down the spread of the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/Alberto Estevez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Beðið eftir því að komast í búð í Barselóna.

Nýta farþegavélar til vöruflutninga

Hjá Icelandair eru farþegavélar nú nýttar til vöruflutninga, með því að nýta allar leiðir viðheldur Icelandair Cargo 70-80% fyrri flutningagetu að sögn Gunnars Más Sigurfinnssonar framkvæmdastjóra. 

Leita nýrra leiða vegna landamæralokana

Samskip hefur beint því til viðskiptavina að panta tímanlega. Ottó Sigurðsson, framkvæmdastjóri innflutningssviðs Samskipa, segir að enn sem komið er hafi allt gengið, engar beiðnir hafi algerlega strandað en það geti komið upp tafir, einkum þegar flytja þarf vörur yfir landamæri. Hann segir fyrirtækið leita leiða til að hlutirnir gangi upp, sums staðar sé snúið að flytja vörur með trukkum því bílstjórar megi ekki fara yfir landamæri, í staðinn hafi verið gripið til þess að flytja vörur með lestum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Ottó Sigurðsson

Hægist líklega á eftir páska

Hann segir innflutning á matvælum ganga vel, hann hafi lítið dregist saman og samdráttinn megi að mestu skrifa á minni eftirspurn hjá veitingastöðum, stóreldhúsum og mötuneytum. Í öðrum vöruflokkum er samdráttur meiri, til dæmis minna flutt inn af bílum, byggingavöru og sumum smásöluvörum. Ottó reiknar með því að þessi innflutningur dragist enn meira saman eftir páska og óvissan á mörkuðum er að hans sögn mikil. 

Mynd með færslu
 Mynd: flickr
Vöruflutningar

Samskip tóku í vikunni eitt af fimm flutningaskipum sínum tímabundið úr rekstri, Ottó segir þetta bein viðbrögð við samdrætti í innflutningi. Það sé mikilvægt að finna jafnvægi í inn- og útflutningi á þessum skrítnu og erfiðu tímum.

Á móti hefur Samskip aukið viðkomur í strandsiglingu um Ísland. Aftur teknar upp vikulegar siglingar til Akureyrar en frá áramótum hefur verið siglt þangað hálfsmánaðarlega. Tímabundið er þó bara siglt þrisvar sinnum í viku til Grímseyjar, ekki fjórum sinnum eins og áður. 

Minna ferskt meira fryst

Eimskip hefur líka gert tímabundnar breytingar á gámasiglingakerfinu vegna áhrifa COVID-19. Tvö gámaskip af tíu verða tekin úr rekstri til að tryggja fjárhagslegan styrk félagsins, það var raunar búið að selja skipin, það er bara verið að skila þeim fyrr en til stóð. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að nýja kerfið veiti sambærilega þjónustu frá lykilhöfnum og verði með stysta mögulega flutningstíma frá meginlandi Evrópu, Skandinavíu og Bretlandi. Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri, segir að áfram verði viðhaldið sterkri inn- og útflutningsjþonustu. Ferskar sjávarafurðir dragist saman á kostnað frystra og kerfinu hafi meðal annars verið breytt til að mæta því. 

Ósammála um framboðsskort

Í vikunni sagði Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna þörf á því að bændur hér brygðust við framboðsskorti á fersku grænmeti frá útlöndum. „Mér sýnist Evrópa lenda núna í uppskeruvanda í svona stærri skala þegar kemur að grænmetisuppskeru,“ sagði Gunnar í kvöldfréttum sjónvarps fyrr í vikunni.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Gunnar Þorgeirsson

Mannekla blasi við grænmetisbændum ytra, sem vanalega ráða til sín farandverkafólk frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins. Innflutningsaðilar sem Spegillinn ræddi við sögðu ljóst að verð á innfluttu grænmeti færi hækkandi en sögðust ekki hafa fengið þau skilaboð frá birgjum sínum úti að ekki væri hægt að afgreiða pantanir, aftur á móti hafi borið á skorti innanlands.

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Grænmeti.

Magnús Óli hjá Innnes segir mikilvægt að styrkja innlenda framleiðslu en líka brýnt að viðhalda góðum viðskiptasamböndum við alþjóðlega birgja og geta nálgast vörur eftir mörgum leiðum. Verslanir þurfi á tímum sem þessum að standa sína plikt og það sé ábyrgðarhlutur að láta í veðri vaka að það sé yfirvofandi skortur þegar nægar séu birgðirnar. Hann vill þó taka fram að fyrirtækið hefur átt góð viðskipti við íslenska garðyrkjubændur. 

Framtíðin og COVID-lexíur

Birgðastaðan næstu mánuði virðist vera í besta falli góð og í versta falli ásættanleg en hvernig eru framtíðarhorfurnar? Og kennir COVID-19 flutningsbransanum einhverjar lexíur?

Mynd með færslu
 Mynd: Fantastic Removals

Sumir segja að draga þurfi lærdóm af COVID-krísunni, það þurfi að einfalda og styrkja aðfangakeðjur þannig að áfall í einu landi, til dæmis rekstrarstöðvun í Kína, eða truflun í ákveðnum geira, svo sem skortur á vöruflutningabílstjórum í Evrópu, setji ekki allt úr skorðum. Keðjan hafi verið straumlínulöguð í drasl, lagerhald minnkað, allt til að tryggja sem mestan efnahagslegan ávinning en áhættan vaxið að sama skapi. Þá telja sumir ástandið áminnningu um að þjóðir þurfi að framleiða meira af nauðsynjavörum sínum sjálfar, vera sjálfum sér nægar í auknum mæli. Andri segir vert að staldra við og íhuga hvort einfalda þurfi keðjurnar en að það hafi komið honum á óvart hversu vel hafi gengið, að vörur skuli flæða óheftar frá svæðum eins og Ítalíu. Hann hefur ekki áhyggjur af matvælaöryggi en telur að huga megi að því að styðja betur við bakið á íslenskri framleiðslu, horfir þar til vistspors af flutningum og þess að standa vörð um störf hérlendis. 

Magnús Óli hjá Innnes segir ómögulegt að spá langt fram í tímann, það hvernig gangist að viðhalda flæðinu í innflutningi velti að stórum hluta á hvernig fyrirtækjum gangi að manna sig, bæði hér og erlendis. Í landinu séu til nokkra mánaða birgðir af ýmsum matvælum, þó meiri veltuhraði sé í ferskvöru. Eins og er gangi vel og engin teikn á lofti sem hafa þurfi áhyggjur af. 

Innnes verslar við yfir 200 birgja og Magnús segir fyrirtækið hafa góðan aðgang að miklu úrvali, komi upp vandamál við að panta einhverja vöru megi snúa sér til annars birgja. Hann segir sögu viðskipta við sum þessara fyrirtækja ná þrjátíu ár aftur í tímann, það hafi byggst upp traust og viðskiptavild. Magnús heldur að velvilji í garð Íslands reynist vel í erfiðu árferði, það hafi komið vel í ljós í hruninu þegar margir matvælaframleiðendur ætluðu hreinlega að strika Ísland út af listanum, þá hafi þessir birgjar staðið með þjóðinni og Magnús segist fullviss um að það geri þeir aftur, verði þess þörf. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV