Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar ekki mikið

Mynd: Hulda Geirsdóttir / RÚV
Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað aðeins undanfarið en ekki mikið segir ríkislögreglustjóri. Hún hvetur fólk til að vera á verði. Lögreglan og almannavarnir hafa varað við því að hætta sé á auknu heimilisofbeldi í þeirri innilokun og minnkandi samskiptum sem fylgja samkomubanni.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri ræddi þetta í morgunþætti Rásar 1 og 2 í morgun. „Það hafa gerst tvö hræðileg heimilisofbeldismál, eða allt bendir til þess að það sé þannig,“ sagði Sigríður Björk. Hún vísaði þar til andláta tveggja kvenna í heimahúsum þar sem karlmenn eru í haldi. Þau mál eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Hún segir að almennt hafi þó tilkynningum um heimilisofbeldi og brot gegn börnum ekki fjölgað að ráði síðustu vikur. „Það er ekkert mikil aukning. Aukningin hefur verið að koma smám saman. Það er aðeins aukning á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Við þurfum bara að vera vakandi fyrir þessum tölum. Rannsóknir sýna það að ofbeldi getur aukist í svona ástandi, innilokun.“

Heimilisofbeldi var rætt á fundi ríkislögreglustjóra á Norðurlöndum í síðustu viku. Allir lýstu þeir áhyggjum af auknu heimilisofbeldi og brotum gegn börnum. Sigríður Björk sagði fjölda stofnana leita leiða til að draga úr hættu á heimilisofbeldi. Þó verði tilkynningar að berast, bæði frá þolendum og þeim sem verða vitni að því. „Versta mögulega staðan er að halda að sér höndum,“ sagði Sigríður Björk. Hún sagði að ef fólk vissi innst inni af heimilisofbeldi þá ætti það frekar að tilkynna það of oft frekar en of sjaldan. Lögreglan brygðist þá við, kannski yrði gripið inn í og kannski ættu hljóð eða atvik sér eðlilega skýringu.

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Viðtalið í heild.