Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slæmar horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar

07.04.2020 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Innrennsli í miðlanir við virkjanir Landsvirkjunar hefur verið mjög slakt í vetur og vatnsborð lóna lægra en á sama tíma í fyrra. Þó er ekki talið að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana til að spara vatn.

Á Þjórsársvæði hefur veturinn verið kaldur og mjög þurr og innrennsli með minnsta móti. Við Blöndu hefur staðan verið lítið betri og vatnsborð lónsins lægra en í fyrra. Innrennsli á Austurlandi hefur komið best út, en er samt undir meðallagi. Vatnsborð Hálslóns er þannig talsvert lægra en á sama tíma í fyrra.

Um 700 GWh verri staða en í apríl 2019

Á vef Landsvirkjunar kemur fram að það tók að lækka í miðlunarlónum upp úr miðjum október. Niðurdráttur hafi verið eindreginn síðan. Vetrarblotar hafa ekki náð upp á hálendið og staða miðlunarforða í lok vetrar er undir meðallagi. Staðan nú eru um 700 gígavattstundum verri en á sama tíma í fyrra.

Lónin nái að fyllast verði góð tíð í sumar

Þó framundan sé óvissa um tíðarfar og tímasetningu vorflóða, telur Landsvirkjun að ekki þurfi að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana til að spara vatn í miðlunarlónum. Ef tíðarfar verður hagfellt í sumar muni miðlunarlón ná að fyllast í haust.