Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sérsniðu snjallforrit fyrir COVID-sjúklinga á 2 vikum

Mynd: Sidekick Health / RÚV
Á hálfum mánuði tókst að sníða fjarheilbrigðisþjónustu sérstaklega að þörfum þeirra sem hafa smitast af kórónuveirunni. Sjúklingarnir skrá líðan sína og breytingar sem verða á henni í sérstakt snjallforrit.   

Starfsfólk COVID-deildarinnar á Landspítalanum hringir á hverjum degi í fjögur hundruð til sex hundruð manns sem greinst hafa með sjúkdóminn. Sú hugmynd kviknaði að nýta fjarheilbrigðisþjónustu með kerfi sem nefnist Sidekick.

„Það sem við sáum með þennan COVID-faraldur var að þarna höfðum við tól sem við höfum verið að byggja upp á sex árum sem bauð upp á ýmislegt af því sem við töldum að gæti hjálpað í þessu ástandi,“ segir Tryggvi Þorgeirsson,
læknir og framkvæmdastjóri Sidekick.

„Okkur leist bara stórvel á þá möguleika sem okkur voru sýndir þarna,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir COVID-19 deildar Landspítalans.

Tryggvi og samstarfsfólk settu allt í gang og gerðu sérútgáfu af forritinu fyrir COVID-sjúklinga.

„Og bara tveimur vikum síðar erum við komin með þetta snjallforrit, þetta fjarheilbrigðistæki í hendurnar og erum að byrja innleiða það núna. Þetta gefur okkur möguleika á því að sinna fleira fólki en kannski ella,“ segir Ragnar Freyr.

Þeir COVID-sjúklingar sem vilja fá aðgang að forritinu. Fólk skráir daglega einkenni sín.

„Í hvert skipti sem þú svarar í forritinu þá er það svar vigtað og við getum flaggað þessum einkennum. Þannig að algóriþminn sem liggur þarna á bak við, hann greinir hvenær veikindi þín verða alvarlegri og varpar því fyrir framan augu okkar og við grípum inn í,“ segir Ragnar Freyr.

Með Sidekick fást betri upplýsingar það hvernig einkenni sjúklinga þróast.

„Og leyfir okkur síðan að senda út alls konar upplýsingar, bæði myndbönd þar sem sjúkraþjálfari kennir fólki að gera öndunaræfingar, sálfræðingur sem ræðir um áhrif streitu og kvíða í þessu ástandi,“ segir Tryggvi.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV