Hömlur á ferðir til og frá útlöndum í skoðun

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Íslendingar gætu þurft að sleppa utanlandsferðum á meðan kórónuveirufaraldurinn geisar í heiminum. Sömuleiðis kemur til greina að setja takmarkanir á komu ferðamanna hingað, segir sóttvarnalæknir. Reglur um hátíðir í sumar eru í mótun.

Tilmæli um sóttkví eftir heimkomu hugsanleg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að til greina komi að hvetja Íslendinga að fara ekki til útlanda á næstu mánuðum. Hann hefur mestar áhyggjur af því að COVID-19 blossi upp aftur þegar hömlum í þjóðfélaginu verður aflétt.   

Unnið er að útfærslu á því hvað við tekur eftir samkomubann. Tillögurnar verða ekki kynntar fyrr en eftir páska. Þótt núverandi reglur um samkomubann gildi til 4. maí þá er langt í frá öllu lokið með hömlur. 

„Og það gæti alveg komið til greina að hvetja fólk til að vera ekki að fara erlendis alla vega á meðan þessi faraldur er erlendis,“ segir Þórólfur. 

Þá kemur líka til greina að hvetja fólk til að fara í sóttkví þegar það kemur að utan hafi það ekki mótefni gegn veirunni. Mótefnamælingu hefur ekki verið komið á laggirnar hér. 

Þannig að frjáls för fólks án þess að huga að COVID-19 er kannski ekki í sjónmáli alveg á næstunni?

„Nei, það finnst mér ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tilmæli um sóttkví eftir komu til landsins næstu mánuði eru til athugunar.

Mestar áhyggjur af að faraldur blossi upp aftur

Þegar samgöngur við útlönd fari aftur að aukast þá þurfi að tryggja heilsuna og það að faraldurinn fari ekki aftur á flug.

„Það eru þær áhyggjur sem ég hef mest af. Ég veit að það getur orðið erfitt, að það getur orðið erfitt fyrir ferðamannaiðnaðinn og getur orðið erfitt bara fyrir einstaklinga.“

Þannig að þú sérð þá kannski fyrir þér að það þurfi að setja svona einhverjar reglur eða mörk um flæði ferðamanna hingað?

„Já, ég held að það þurfi að gera það líka. Ef það kemur í ljós til dæmis að mjög fáir hafa sýkst hér á landi að þá þurfum við að tryggja það að veiran komi ekki hingað aftur.“

Aflétta hægt og bítandi eða að loka öllu aftur

Hvað varðar hugsanlegar samkomuhömlur á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, þá hefur það ekki verið ákveðið enn. Það er á teikniborðinu, segir Þórólfur. 

„En ég veit að það verður erfitt og það verða margir óþolinmóðir og mörgum finnst örugglega að þetta verði gert of hægt. En við erum náttúrulega fyrst og fremst að hugsa um það að við fáum ekki þessa veiru aftur hingað inn. Af því þá bara lokast allt aftur. Og það er valið, að fá veiruna aftur og loka öllu aftur eða gera þetta hægt og bítandi og byggja sig þannig upp aftur og þjóðfélagið upp aftur. Ég held að það væri skynsamlegasta leiðin.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn gætu orðið með breyttu sniði í ár.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi