Fullt af fólki í sumarbústöðum í trássi við tilmæli

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fjöldi fólks dvelur í sumarbústöðum á Suðurlandi í trássi við tilmæli almannavarna um að fólk eigi að vera heima hjá sér. Yfirlögregluþjónn óttast að veikist fólk í bústöðum verði erfitt að koma sjúkrabíl þangað vegna ófærðar. Lögreglan hyggst fara í eftirlitsferð um sumarhúsabyggðir um páskana.

Rúmlega þrettán þúsund sumarbústaðir eru á landinu og drjúgur hluti þeirra er í eigu stéttarfélaga. Þau hafa mörg ákveðið að leigja ekki út bústaði um páskana. 

Almannavarnir hafa beint þeim tilmælum til fólks að vera ekki í sumarbústöðum og ekki vera á ferðalögum innanlands. Þegar fréttastofa var á ferð um Grímsnesið var talsverð umferð og greinilegt að ekki hlýða allir tilmælunum. 

Í versluninni Borg var stýran í óða önn að panta inn vörur þegar fréttastofu bar að garði. 

„Þetta hefur aukist smám saman svona út mánuðinn. Það eru margir í bústað,“ segir Björg Ragnarsdóttir sem stýrir versluninni Borg.

Þannig að það eru margir búnir að vera í sumarbústöðum hérna á svæðinu?

„Mjög margir. Mjög mikil aukning á fólki,“ segir Björg.

Sex lögreglumenn og sjúkraflutningamenn þurftu að fara vera í sóttkví á meðan beðið var niðurstöðu COVIDS-prófs á þremur manneskjum sem áttu að vera í sóttkví en lentu í bílveltu um helgina í sumarbústaðahverfi.

„Þetta er það sem við höfum áhyggjur af. Við viljum ekki að heilbrigðisþjónustan sé að stíflast af einhverjum sem eru að setja okkur í vandræði út af vitleysisgangi og það er ekki hægt að kalla það neitt annað,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
 
Fólk sé duglegt að tilkynna ef það veit af fólki í sóttkví úti á meðal fólks.

„Og undarlegar tilkynningar um fólk í áfengisverslunum sem á að vera í einangrun,“ segir Oddur.

Vilhelm Sverrisson býr í Reykjavík en er nú í sumarbústað í Grímsnesi.

„Búinn að vera hérna í þrjár vikur. Hef það bara gott,“ segir Vilhelm.

Af hverju ákvaðstu að koma hingað í sumarbústað fyrir þremur vikum?

„Ég er í félagsskap sem lokaði húsakynnunum á sínum tíma þegar þetta kom upp á. Það var mitt hobbí svo ég fór hingað,“ segir Vilhelm.

Eru margir í bústöðunum í kringum þig?

„Já, ég sé það þegar það rökkvar að þá er bara ljós í mjög mörgum bústöðum,“ segir Vilhelm. 

„Við viljum að fólk sé sem mest heima hjá sér um páskana og sé ekki í sumarhúsunum. Meira og minna eru allar sumarbústaðabyggðir stíflaðar af snjó núna þannig að það t.d. ef einhver veikist þar, getur verið meiriháttar aðgerð að komast bara með sjúkraflutninga eða lækna þar að,“ segir Oddur.

Oddur segir að lögreglan ætli um páskana að fara í eftirlitsferðir um sumarhúsabyggðir þar sem fært er.

En hvað finnst Vilhelm um það að Víðir Reynisson sé að biðja fólk um að vera bara heima í Reykjavík og ekki fara í bústaðina?

„Þetta gengi, þriggja manna gengi, það eiga allir að hlusta á það og fara eftir því sem þau segja,“ segir Vilhelm.

En þú ferð samt í bústaðinn?

„Já, ég fór þangað áður en hann bað mig að gera það ekki,“ segir Vilhelm.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi