Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Frestar frumvarpi um hálendisþjóðgarð

07.04.2020 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur frestað því til haustsins að leggja fram frumvörp um hálendisþjóðgarð og þjóðgarðastofnun. Öllum ráðuneytum er nú gert að fækka þingmálum til þess að setja viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum í forgang.

Frumvarp um hálendisþjóðgarð hefur verið afar umdeilt og meðal annars fjallað um að efasemdaraddir hafi heyrst innan úr stjórnarmeirihlutanum á Alþingi. Þá hafa mörg sveitarfélög sett sig upp á móti frumvarpinu og telja það skerða skipulagsvald þeirra.

Guðmundur Ingi greinir frá frestun þingmála á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann segir að samráðsferlið með sveitarfélögunum í tengslum við frumvarpið hafi verið lærdómsríkt. Hann segir að stofnun þjóðgarðsins myndi fela í sér einstakt tækifæri fyrir Ísland og yrði ómetanleg landkynning.

„Ég hyggst verja tímanum fram á haust til að taka enn frekara samtal um þessi þýðingarmiklu mál sem varða okkur öll og ekki síst komandi kynslóðir sem erfa munu landið,“ segir Guðmundur Ingi.

Ráðherra greinir einnig frá því að hann reikni með að tvö frumvörp verði kynnt í vor, sem fari svo á þingmálaskrá haustsins. Það er heildarendurskoðun á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og breytingar á lögum um rammaáætlun sem tengist vindorku.