Ein áhöfn í Herjólfi frá vegna Covid-19

07.04.2020 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
12 manna áhöfn í Herjólfi þurfti að fara í sóttkví eftir að Covid-19 smit kom upp hjá áhafnarmeðlimi. Framkvæmdastjóri Herjólfs segir að allt kapp sé lagt á að tryggja öruggar samgöngur milli lands og eyja.

Fjöldi þeirra Vestmannaeyinga sem greinst hafa með kórónuveiruna fór yfir 100 í gær og er stór hluti íbúa í sóttkví.

Nota gamla Herjólf sem viðverustað

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að gerðar hafi verið gríðarlega miklar ráðstafanir í skipinu vegna útbreiðslu veirunnar í bænum. Þar sem stýrimenn og skipstjórar séu fáir hafi þeir til dæmis verið beðnir um að fara ekki heim til sín þegar smit kom upp í leik- og grunnskólum í bænum. Þá komi gamli Herjólfur að góðum notum.

„Við höfum fengið starfsmenn til að fara af heimilunum og nýtum gamla Herjólf í það. Hann er bara hérna hinum megin við höfnina og er auðvitað ekki í notkun. Fólk getur gist þar og verið útaf fyrir sig,“ segir Guðbjartur.

Áhöfn í sóttkví í 14 daga

Þegar neyðarstigi almannavarna var lýst yfir var áhöfn Herjólfs skipt upp í þrjá hópa sem aldrei hittast. Þegar smit kom upp hjá áhafnarmeðlimi í einum hópnum um miðjan mars fór öll áhöfnin því í sóttkví í fjórtán daga og var alveg frá þann tíma. Guðbjartur segir það ekki hafa komið að sök þar sem ferðum milli lands og eyja hafi verið fækkað verulega tímabundið. Hinar tvær áhafnirnar hafi því tekið boltann. Flestir úr áhöfninni sem fór í sóttkví eru nú komnir aftur til starfa.

Lífæð Eyjamanna

Að sögn Guðbjarts eru þrír til fjórir áhafnarmeðlimir á Herjólfi nú með Covid-19 og þrír til fjórir til viðbótar í sóttkví. Hann segir að fyllstu varúðar sé gætt í skipinu. Búið sé að hólfa það niður og einangra brú skipsins svo skipstjóri og stýrimaður hitti ekki aðra. 

„Það er búið að grípa til mikilla ráðstafana í samráði við almannavarnir og samhæfingarmiðstöðina hérna í Vestmannaeyjum. Skipið er þannig núna að áhafnarmeðlimir hittast sama og ekkert. Enda þarf að tryggja að við getum alltaf siglt skipinu í land, þetta er auðvitað lífæð fólksins hér.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi