Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Börn á ofbeldisheimilum hafa ekkert val

07.04.2020 - 16:12
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs. - Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Ýmislegt bendir til þess að heimilisofbeldi hér á landi hafi aukist í kórónuveirufaraldrinum, sagði Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hún hvetur fólk til að gera allt sem það geti til að koma börnum á ofbeldisheimilum til hjálpar. Þau hafi ekki val um dvalarstað sinn og ofbeldið hafi áhrif á þau fram á fullorðinsaldur.

„Það er mikilvægt að hafa í huga að börn á ofbeldisheimilum hafa ekkert val. Börn eru bara þar sem börn eiga að vera. Rannsóknir sýna að foreldrar barna á ofbeldisheimilum standa oft í þeirri trú að börnin verði ekki fyrir áhrifum af ofbeldinu,“ sagði Sigþrúður á fundi Almannavarna. Oft sé það þannig að það sé það verkefni sem hjón, pör eða foreldrar hafi leyst í hvað mestri sameiningu, sé að telja sér trú um að börn þeirra hafi ekki orðið fyrir áhrifum af ofbeldi ef það beinist ekki að börnunum sjálfum.

„Þessi trú er röng,“ segir Sigþrúður. „Við vitum það í athvarfinu af því að við þekkjum þessi börn, og það sýna það fjölmargar rannsóknir, að það að alast upp á ofbeldisheimili hefur gríðarleg áhrif á börnin.“ Áhrifin séu ekki bara í nútíð og margir rannsóknir sýni að það að alast upp á ofbeldisheimili setji börn í þá stöðu að þau séu líklegri til að lenda í ótalmörgum erfiðleikum síðar á ævinni, heldur en ef ekki væri fyrir ofbeldið. 

Hvetur fólk til að rétta börnum hjálparhönd

Sigþrúður segir það mikilvægasta af öllu að börn hafi einhvern til að leita til. Þau séu minna í skólum og annars staðar en heima þessar vikurnar og hafi því færri til að leita til. „Það mikilvægasta sem við öll getum gert er að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að börn þurfi að dveljast á ofbeldisheimilum. Það getur þýtt að fólk þurfi að hætta að beita ofbeldi á heimilum eða að ákveða að leita okkur aðstoðar vegna ofbeldishegðunar sem það ræður ekki við. Þolendur þurfa að taka þá ákvörðun að fara af heimilinu þó að það skref geti verið stórt og ógnvænlegt.“ Þá hvatti Sigþrúður fólk til að tilkynna til barnaverndar hafi það grun eða vitneskju um ofbeldi á heimili. Þá skipti sköpum að börn viti að þau séu ekki ein, að það sé einhver sem láti sig velferð þeirra varða og rétti þeim hlýlega hjálparhönd. 

Beindi orðum sínum til gerenda

Fólk á ofbeldisheimilum, hvort sem það er fólk sem beitir ofbeldi eða er beitt ofbeldi, upplifir oft að það hafi ekki val, að það sé fast í aðstæðum, sagði Sigþrúður á fundinum. „Það er skiljanlegt að fólk upplifi að það sé ekki mikið val og að það  sé þröng leið út en hún er til staðar. Það eru alls konar hindranir, sumar eru bara í kollinum á okkur, en svo eru líka ytri hindranir sem þarf að ryðja úr vegi til þess að fólk komist burt úr þessum aðstæðum, hætti að beita ofbeldinu eða komist í burtu frá því.“ 

Sigþrúður beindi orðum sínum sérstaklega til fólks sem beitir ofbeldi á heimilum og hvatti það til að leita sér hjálpar og benti á Heimilisfrið og hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Kvennaathvarfið opið í samkomubanni

Þá minnti hún þolendur ofbeldis á að Kvennaathvarfið sé alltaf opið og að þar sé svarað í símann allan sólarhringinn. Hún hvatti konur sem beittar eru ofbeldi til að hafa samband, jafnvel þó að þær sjái ekki fyrir sér að dvelja í athvarfinu, telji ofbeldið ekki nógu alvarlegt, eða að ekki séu úrræði fyrir þær þar. Nú séu óvenjulegir tímar sem kalli á óvenjuleg úrræði. Einnig er hægt að hafa samband við Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Drekaslóð, Stígamót og Aflið á Akureyri. Fólk sem starfi að málaflokknum hafi áhyggjur af því að ná ekki til þeirra sem þurfi á hjálpinni að halda en að þau séu öll af vilja gerð og þjónustan standi til boða eins og áður, þó að sums staðar sé hún ef til vill með breyttu sniði vegna sóttvarnareglna.