Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

26 skemmtiferðaskip hafa þegar afboðað komu sína

07.04.2020 - 02:57
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristjánsdóttir
Búið er að afboða komu 26 skemmtiferðaskipa, sem áður höfðu skráð komu sína til Reykjavíkur. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, greindi frá þessu í viðtali í síðdegisþætti Bylgjunnar í dag. Fyrsta skip ársins kom til landsins í mars, en koma næsta skips er skráð 21. maí. Óvíst er þó að það komi.

Greint er frá þessu á Vísi.is. Gísli segir að 189 skip hafi verið búin að boða komu sína en 26 hafi þegar afboðað sig og væntir hann þess að fleiri fylgi í kjölfarið. Nánast öll skemmtiferðaskip heims liggi nú bundin við bryggju og óvíst hvenær landfestar verði leystar á ný. Gísli vonast til að línur taki að skýrast fljótlega eftir páska. Segist hann ekki bjartsýnn á skipakomur í maí og júní, en vonir standa til að úr rætist upp úr því.

Leiðrétt 7:45 Gísli Gíslason er hafnarstjóri Faxaflóahafna, ekki stjórnarformaður eins og sagði upphaflega í fréttinni.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV