Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Um 100 skráðir í bakvarðasveit bænda

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Bændur á átta búum hafa veikst af völdum kórónuveirunnar. Eitt bú hefur óskað eftir aðstoð úr bakvarðasveit bænda. Verkefnastjóri telur bændur vel undirbúna undir farsóttina.

Um hundrað manns um allt land hafa skráð sig í bakvarðasveit bænda og eru tilbúnir að taka að sér bústörf ef óskað er eftir hjálp vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar.

Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Bændasamtökum Íslands segist full þakklætis fyrir viðbrögðin, á listanum sé efnilegt fólk, allt frá fyrrverandi bændum til flugvirkja og flugfreyja. Mikilvægt sé nú sem aldrei fyrr að tryggja órofinn rekstur og þar með matvælaöryggi í landinu. 

Eitt bú hefur óskað eftir aðstoð

Á átta búum hafa bændur veikst vegna veirunnar, þar á meðal sex í Húnaþingi vestra. Eitt bú hefur óskað eftir aðstoð frá bakvarðasveitinni en aðrir hafa fengið hjálp frá nágrönnum og ættingjum. 
Guðbjörg segir búið að leggja mikla vinnu í leiðbeiningar varðandi smitvarnir og öryggisaðstæður á búum. Þá geti búin búið til viðbragðsáætlun sem hjálpi afleysingafólki að ganga í störfin á bænum. Búnaðarsambönd á hverju svæði sjái um að finna fólk til að leysa af og deila nauðsynlegum hlífðarfatnaði og hreinsiefnum. 

„Við teljum okkur þannig vel undir búin og margir nánast búnir að loka búum fyrir utanaðkomandi, og taka börnin úr skólum og slíkt“. Þá sé farið að undirbúa áætlanir varðandi sauðburð í maí í samvinnu við Landssamband sauðfjárbænda.

14 daga afleysing

Bændur eiga rétt á afleysingu í 14 daga komi til veikinda.  Til að standa undir kostnaði við þjónustuna hafa bændasamtökin gert samkomulag við Félagsmálaráðuneytið og Vinnumálatofnun um fjárstuðning úr Tryggingasjóði til sjálfstætt starfandi fólks.