Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefnir í hópuppsagnir á Vogi

06.04.2020 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á Vogi, segir að það stefni í hópuppsagnir hjá starfsfólki á meðferðarsviði SÁÁ. Hann er einn þeirra sem ætla að segja upp ef ekki verður skipuð ný framkvæmdastjórn innan samtakanna.

„Ég mun hætta ef ekkert verður að gert. Ég get ekki unnið í þessum aðstæðum. Það er mikill uggur í fólki. Stemningin er hræðileg og fólki líður mjög illa. Það er mikil óvissa og ósætti við stjórn SÁÁ,“ segir Víðir. 

Vilja enn að framkvæmdastjórn og formaður víki

Mikil átök hafa verið innan SÁÁ undanfarnar vikur. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, sagði upp störfum eftir að framkvæmdastjórn samtakanna sagði upp 8 sálfræðingum sem starfa á sjúkrahúsinu, án þess að ráðfæra sig við hana eða aðra stjórnendur. Við það vildi Valgerður ekki una og sagði starfi sínu lausu. Í kjölfarið sendu 65 starfsmenn á Vogi frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var yfir vantrausti á framkvæmdastjórn SÁÁ. Var þess krafist að uppsagnirnar yrðu dregnar til baka og að bæði formaðurinn, Arnþór Jónsson, og framkvæmdastjórnin myndu stíga til hliðar. 

Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, stjórn Sál­fræðinga­fé­lags Íslands og Geðlækna­fé­lag Íslands hafa undanfarna daga öll sent frá sér yfirlýsingar þar sem ákvörðun framkvæmdastjórnar SÁÁ er gagnrýnd harðlega. 

Málið var tekið fyrir á neyðarfundi aðalstjórnar SÁÁ 29. mars. Þar var samþykkt að vantrauststillögu á hendur stjórninni yrði vísað frá. Að öllu óbreyttu situr því stjórnin áfram en Valgerður hættir. 

Segir formanninn misbjóða starfsfólkinu

Víðir segir að þessi samþykkt breyti í sjálfu sér ekki afstöðu starfsfólksins. Þess sé enn krafist að stjórnin og formaðurinn segi af sér. 

„Þessi fundur hefur bara þau áhrif að það hefur myndast enn stærri gjá milli okkar og framkvæmdastjórnarinnar. Við erum með stjórn sem hlustar ekki og tekur ekki mark á ábendingum. Þessi formaður er algjörlega búinn að misbjóða öllum með framkomu sinni, “ segir Víðir. 

Hafa ekki heyrt frá framkvæmdastjórninni

Hann segir að starfsfólkið hafi ekkert heyrt frá framkvæmdastjórninni eftir fundinn og ekki fengið nein viðbrögð við vantraustsyfirlýsingunni. Fyrir helgi var því send ítrekun á heilbrigðisráðherra, landlækni og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. 

„Við erum hrædd um að fólk sem að vill ekki sleppa völdum ætli að keyra þessa skútu upp í sker. Það er einfalt að leysa þetta og það er einfalt að boða til aðalfundar. Þetta er afar einfalt í okkar huga. Við viljum nýjan formann og nýja stjórn,“ segir Víðir.

Verið að skipuleggja fjarfund til að ræða málin

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir að til standi að funda með starfsfólkinu. Það sé aftur á móti erfitt í framkvæmd í samkomubanni. Verið sé að skipuleggja fjarfund til að ræða málin á næstu dögum.

Hann segir að farið hafi verið í uppsagnirnar af illri nauðsyn vegna fjárhagserfiðleika. Þá sé ekki hlaupið að því að skipta um framkvæmdastjórn si-svona. 

„Þetta er ekki einfalt mál. Við erum gömul samtök og um okkar samtök og starfsemi gilda lög. Lög sem aðalfundur þarf að samþykkja. Þegar það kemur upp vandi eða krísa þá er ekki valkostur að breyta lögum samtakanna eða taka einhverjar ákvarðanir sem ganga gegn þeim. Það er ekki hægt að verða við þessum kröfum á lögformlegan hátt,“ segir Arnþór.

Hann gerir ekki ráð fyrir að aðalfundi verði flýtt vegna þeirrar ólgu sem upp er komin innan samtakanna.

„Það er ekki hægt að hafa aðalfund í samkomubanni,“ segir hann. Því þurfi að finna málamiðlun fram að næsta aðalfundi til að tryggja starfsfrið.