Skipverjar veikir í Ruby Princess

06.04.2020 - 08:41
epaselect epa08344827 The Ruby Princess, with only crew onboard, docks at Port Kembla, Wollongong, Australia, 06 April 2020. A criminal investigation will be launched into how cruise line operator Carnival Australia was allowed to disembark Ruby Princess passengers in Sydney, resulting in several deaths and COVID-19 outbreaks throughout the country.  EPA-EFE/DEAN LEWINS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Ruby Princess kemur til hafnar í Port Kembla. Mynd: EPA-EFE - AAP
Farþegaskipið Ruby Princess fékk að koma að koma til hafnar í Port Kembla nærri Sydney í Ástralíu í morgun eftir að um 200 skipverjar fóru að sýna einkenni COVID-19. Hjúkrunarfólk ætlar um borð og kanna líðan skipverja og hugsanlega flytja í land þá sem veikastir eru.

Skipið hefur verið undan ströndum Ástralíu undanfarnar vikur, en í síðasta mánuði leyfðu stjórnvöld 2.700 farþegum að fara frá borði og til síns heima víðs vegar um land, þrátt fyrir að hafa sett bann á komur farþegaskipa nokkrum dögum áður.

Hundruð þeirra greindust síðar með kórónuveiruna og hafa tíu þeirra dáið úr COVID-19, eða um fjórðungur allra sem látist hafa úr sjúkdómnum í Ástralíu.

Lögreglan í Nýja Suður-Wales segir að skipið fái að vera í höfn í allt að tíu daga, en verði þá að sigla út úr ástralskri lögsögu. Áhöfnin fái ekki að fara í land nema í neyðartilvikum.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi