Klæddi Elísabetu Bretadrottningu í búning Daða

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter - RÚV

Klæddi Elísabetu Bretadrottningu í búning Daða

06.04.2020 - 10:39

Höfundar

Susanne Marie Cork, betur þekkt sem söngkonan SuRie, sló í gegn á netinu í gær þegar hún birti mynd af Elisabetu Bretadrottningu í búningi Daða og gagnamagnsins. SuRie keppti fyrir hönd Bretlands í Eurovision fyrir tveimur árum.

Bretadrottning ávarpaði bresku þjóðina í gær og hvatti hana til dáða í baráttunni við kórónuveiruna. 

Þetta var aðeins í fimmta skipti sem Elísabet talaði til þjóðarinnar utan hins hefðbundna jólaávarps. Í ræðunni sagði hún að hinir góðu dagar myndu snúa aftur. „Við munum hitta vini okkar á ný,  við munum hitta fjölskyldur okkar á ný. Við verðum saman á ný,“ sagði drottningin og vitnaði þar til lags Veru Lynn, We'll Meet Again, sem naut mikilla vinsælda í seinni heimstyrjöldinni. 

Söngkonan SuRie var meðal þeirra sem hlustaði á ávarp Elísabetar og virtist átta sig strax á lit kjólsins sem drottningin klæddist - hann var gagnamagnsgrænn.  Bretar hafa tekið miklu ástfóstri við Daða og gagnamagnið og því var spáð áður en Eurovision-keppninni var aflýst að íslenska lagið myndi jafnvel vinna sigur.

SuRie þekkir sjálf vel til Eurovision-keppninnar en hún var fulltrúi Breta í Lissabon árið 2018. Hún var reyndar trufluð í atriði sínu af boðflennu og fékk að syngja aftur. Hún hefur síðar sagt að hún þjáist af áfallastreituröskun eftir atvikið.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði: „Við hefðum náttúrulega 100% unnið þetta“

Popptónlist

Daði og Gagnamagnið mega keppa 2021 en þurfa annað lag

Menningarefni

Daði Freyr fékk 12 stig frá BBC

Popptónlist

Eurovision aflýst – Daði Freyr vonsvikinn