Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kennsla hefst að nýju í Danmörku eftir páska

06.04.2020 - 19:05
epa08346662 Denmark's Prime Minister Mette Frederiksen during a press briefing on COVID-19 in the State Department in Copenhagen, Denmark, 6 April 2020. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/Philip Davali  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Kennsla hefst á yngstu stigum grunnskóla Danmerkur strax eftir páska, ef fer sem horfir í þróun faraldursins. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, greindi frá þessu nú síðdegis. Sóttvarnalæknir Svíþjóðar segir það geta reynst nágrannaríkjunum erfitt að draga úr þeim hörðu aðgerðum sem eru í gildi þar.

Faraldurinn er á svipuðum slóðum á Norðurlöndunum, í hægum og stöðugum vexti. Alls staðar er mikið álag á heilbrigðiskerfið og víða farið að bera á skorti af ýmsu tagi, hvort sem það er á grímum, hlífðarfatnaði eða sýnatökupinnum. En það er enginn skortur í Finnlandi, því Finnar voru vel undirbúnir fyrir heimsfaraldur og áttu allar nauðsynjar í geymslurými, sem var opnað í gær í fyrsta sinn í sögu landsins.   

Norska stjórnin segist hafa náð taumhaldi á farsóttinni en þar hafa 73 látist vegna sjúkdómsins. Þar eins og annars staðar hafa heilbrigðisyfirvöld áhyggjur af páskafríum og auknu álagi á heilbrigðiskerfið sem ferðalög gætu valdið. Bæði í Noregi og Danmörku er fólk hvatt til að halda sig heima um páskana og skreppa ekki í sumarbústaðinn eða lengri ferðalög. Í báðum löndum eru ströng samkomubönn í gildi og kennsla liggur nánast niðri en hún hefst að nýju fljótlega eftir páska. Kennsla hefst á yngstu stigum grunnskóla og starf hefst í leikskólum og frístundaheimilum að nýju. Mette Frederiksen lagði þó áherslu á að þetta miðaðist við að faraldurinn héldi sig innan marka, en hann hefur verið í hægum vexti upp á síðkastið. Hún vék oft að því núna seinni partinn að það væri aðgerðum danskra yfirvalda að þakka að þetta væri hægt svona snemma, því Danir hefðu einna fyrstir gripið til þess að loka landamærunum og hvatt íbúa til að halda sig heima.

Stefna sænskra stjórnvalda er mun afslappaðri en nágrannalandanna, en þar hafa flest tilfelli greinst á Norðurlöndunum, rúmlega 7.200. Þar vonast stjórnvöld til að efnahagsáhrifin verði minni fyrir vikið. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segir að það verði bæði Dönum og Norðmönnum erfitt að draga úr þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. „Ég held að bæði Norðmenn og Danir séu mjög áhyggjufullir yfir því hvernig þeir geti opnað að nýju eftir að hafa lokað alveg svo það komi ekki önnur alda faraldursins strax og það er slakað á aðgerðum,“ segir Tegnell.