Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan er með tvö mál til rannsóknar þar sem grunur er um að konum hafi verið ráðinn bani á heimilum sínum. Þær létust með rúmlega viku millibili. Maður um þrítugt er grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana í Hafnarfirði í nótt og er hann í haldi lögreglu. Maður um sextugt var handtekinn fyrir tæpri viku á heimili sínu í Sandgerði, grunaður um að hafa banað sambýliskonu sinni.

Var látin þegar lögregla kom í nótt

Það var um klukkan hálf tvö í nótt sem lögregla var kölluð að íbúðarhúsi í Hafnarfirði. Þegar þangað var komið fannst kona um sextugt látin í húsinu. Tveir menn, annar um þrítugt og hinn á sextugsaldri, voru handteknir á staðnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu er yngri maðurinn sonur konunnar og er hann grunaður um að vera valdur að dauða móður sinnar. Litlar upplýsingar fást um málið frá lögreglunni, en rannsókn er á frumstigi.  

Grunur um annað manndráp í Sandgerði 

Á föstudag var karlmaður á sextugsaldri handtekinn í Sandgerði vegna andláts sambýliskonu hans, sömuleiðis á sextugsaldri. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum, sem barst þann dag, stóð að andlát konunnar væri rannsakað sem sakamál og maðurinn hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 8. apríl.

Í dag barst svo önnur tilkynning frá lögreglunni þar sem fram kom að maðurinn hafi verið handtekinn 1. apríl, fjórum dögum eftir að andlát konunnar var tilkynnt, sem var að kvöldi 28. mars. Það kvöld fóru rannsóknarlögreglumaður, prestur og læknir á staðinn. Ekkert á vettvangi hafi bent til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað, og heldur ekki líkskoðun á sjúkrastofnun. Skoðun réttarmeinafræðings leiddi hins vegar í ljós áverka á hálsi konunnar, samkvæmt heimildum fréttastofu. Maðurinn var þá handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Rannsókn málsins er enn í fullum gangi.