Flugfélög í miklum vandræðum

06.04.2020 - 15:52
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kórónuveirufaraldurinn hefur bitnað hart á efnahagslífi alls staðar í heiminum og það á ekki síst við um ferðaþjónustu. Mörg flugfélög eiga í miklum vanda og hlutabréf hafa fallið mikið í verði. Nú þegar hefur eitt flugfélag, FlyBe, lagt upp laupana. Það var breskt og stærsta innanlandsflugfélag Evrópu og flaug einnig til smærri áfangastaða í grannlöndunum.

Þúsundum flugvéla lagt

Flest flugfélög hafa lagt nánast öllum flugflota sínum. Það má sjá langar raðir flugvéla á flestum flugvöllum heims.

Farþegar eru sjaldséðir í flughöfnum heimsins um þessar mundir. Heimsbyggðin er hætt að ferðast, nánast einu flugferðirnar eru fragtflug, farþegar eru nánast einungis þeir sem hafa orðið innlyksa í útlöndum og eru á leið heim.

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og núverandi stjórnarformaður Travelco Nordic, gjörþekkir ferðaþjónustuna. Hann telur að fleiri flugfélög en FlyBe eigi eftir að komast í rekstrarþrot. Miklar umræður hafi verið um stöðu Norwegian.

Palli var einn í heiminum

Að svipast um í Kaupmannahöfn þessa dagana er eins og að upplifa barnabókina Palli var einn í heiminum. Það er varla nokkur á ferli. Flestar borgir í hinum vestræna heimi eru eins og Kaupmannahöfn þessa dagana, sérstaklega í löndunum þar sem landamærum hefur verið lokað eins og í Danmörku. Hótel eru tóm sem og aðrir gististaðir, enginn á lestarstöðvum eða í jarðlestum, flugvellir eru sem eyðimörk, veitingastaðir víða lokaðir, þar sem búast mætti við iðandi mannlífi í blíðviðri þegar vorið er handan hornsins og kirsjuberjatrén blómstra er engan að sjá. Og þó að ekki séu jafn strangar reglur í gildi í Svíþjóð er ekki margmenni á götum Stokkhólms. Þar er ekki ferðabann og veitingastaðir opnir.

Ein og ein flugvél á Keflavíkurflugvelli

Það fara örfáar flugvélar um Keflavíkurflugvöll, vélar Icelandair standa kyrrar á jörðu niðri eins og flugvélar annarra flugfélaga. Jón Karl telur Icelandair vera í nokkuð góðri stöðu.

Ef við tölum um Icelandair þá virðast þeir vera í góðri sjóðsstöðu, hafa verið ágætlega tilbúnir.

Markaðsaðstæður ráða hvort félög halda áfram

Á þriðja tug erlendra flugfélaga hefur haldið upp áætlunarflugi til Íslands, sum eins og EasyJet, WizzAir og Norwegian hafa flogið til margra áfangastaða frá Keflavík. Jón Karl segir að það ráðist af markaðsaðstæðum hveru mörg þeirra halda áfram áætlunarferðum til Keflavíkur þegar farsóttinni linnir. Hann hafi trú á því að fólk horfi til Íslands sem áfangastaðar, hér sé víðfeðmt og hægt að vera án þess að vera í mikilli snertingu við fólk. 

Óttast fækkun viðskiptafarþega

Breska tímaritið The Economist hefur sagt að mörg flugfélög hafi áhyggjur af því að farþegum í viðskiptaerindum fækki, en þeir greiða að jafnaði meira fyrir fargjöld en fólk á leið í frí. Fólk í viðskiptalífi hafi vanist fjarfundum og ferðist því minna. Þörfin fyrir viðskiptaferðir hlýtur einnig að minnka því gert er ráð fyrir verulegum samdrætti í efnahagslífi um allan heim.

Ferðalög stór þáttur í lífi fólks

Enginn veit um langtímaáhrif farsóttarinnar á flugmarkaðinn. Miklu skiptir hvenær farsóttinni linnir og þá hvort og hvenær almenningur er tilbúinn til ferðalaga. Jón Karl Ólafsson segist sjá fyrir sér tvær myndir, að fólk vilji komast í ferðalög eða að það taki lengri tíma, sem honum finnst líklegra og nefnir tvö ár í því sambandi.

Ferðalög eru orðin svo stór þáttur í okkar lífi, ég held ekki að að sé að verða sú breyting að fólk sé að verða afhuga ferðalögum þó að það geti tekið tíma fyrir fólk að vilja komast af stað aftur

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi