Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

47% minni frávik eftir nafnbirtingu Fiskistofu

06.04.2020 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Eftir að Fiskistofa hóf birtingu á frávikum í ísprósentu í endurviktun afla árið 2015 minnkuðu frávikin um 47% að meðaltali. Þá bendir allt til þess að fáir aðilar standi að baki stórs hluta frávikanna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Daða Más Kristóferssonar og Birgis Þórs Runólfssonar sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þeir gerðu úttekt á endurvigtun á fiski með tilliti til þess hversu mikil frávik í ísprósentu kæmu í raun og veru fram við eftirlit Fiskistofu.

Svokölluð ísprósenta er hugtak yfir það þegar búið er að fjarlægja ís sem notaður er til að kæla aflann og er saman við fiskinn í löndun á hafnarvog. Sé ísprósentan óvenju lág, í samanburði við fyrri landanir er það talið til marks um eitthvað óeðlilegt – að fiski geti í raun hafa verið landað framhjá með því að skrá hann sem ís.

Kveikur greindi frá því árið 2017, eftir að hafa farið í gegnum ársfjórðungsyfirlit Fiskistofu, að í meirihluta eftirlitsheimsókna er ísprósenta talsvert lægri en þegar ekkert eftirlit er á staðnum. 

Stærri frávik hjá smærri fyrirtækjum

Í skýrslu Daða og Birgis var borin saman ísprósenta í afla sem er endurvigtaður frá 1. janúar 2012 til 5. maí 2019, eftir því hvort eftirlitsmenn Fiskistofu stóðu yfir vigtuninni eða ekki. Í skýrslunni kemur fram að frávik í ísprósentu benda til skipulegs ofmats á íshlutfalli um 1,7% að meðaltali allt þetta tímabil. 

Allt bendir til þess að fáir aðilar standi að baki stórs hluta frávikanna. Umtalsvert stærri frávik voru hjá smærri fyrirtækjunum, yfir 3% borið saman við rúm 2% hjá þeim stærri. Minnst eru frávik hjá fiskmörkuðum, segir í samantekt skýrslunnar á vef Stjórnarráðsins.

Aðgerðir Fiskistofu líklegar til árangurs

Fiskistofa hóf birtingu á frávikum í endurvigtun árið 2015 og hefur frá 12. júlí 2016 birt nöfn fyrirtækjanna sem um ræðir. Gögnunum var skipt upp, fyrir og eftir 12. júlí 2016, og kom í ljós að eftir nafnbirtingu Fiskistofu minnkuðu frávikin um 47% að meðaltali, úr 1,89% í 1,09%. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2019 voru frávikin aðeins um 0,4%.

Vorið 2017 tók einnig í gildi lagabreyting sem kveður á um að komi í ljós verulegt frávik á íshlutfalli við eftirlit skuli Fiskistofa standa yfir endurvigtun hjá viðkomandi aðila og á hans kostnað í allt að sex vikur.

„Niðurstöðurnar benda til þess að aukið eftirlit með minni (samþættum) aðilum og áframhald á aðgerðum Fiskistofu sé líklegt til að halda þessu vandamáli í skefjum,“ segir í niðurstöðu skýrslunnar.