Varð fyrir andlegri vakningu í íþróttahúsinu á Núpi

Mynd: RÚV / RÚV

Varð fyrir andlegri vakningu í íþróttahúsinu á Núpi

05.04.2020 - 08:40

Höfundar

Allan sinn uppvöxt taldi Jón Gnarr óhugsandi að hann gæti orðið rithöfundur því hann var lesblindur, með athyglisbrest og auk þess rauðhærður. Þegar hann áttaði sig á því að Johnny Rotten væri með sama háralit og hann og hann væri ekki alslæmur leikari fór hann að skilja að honum væri kannski eitthvað til lista lagt.

Um páskana frumflytur útvarpsleikhúsið nýtt gamanleikrit eftir Jón Gnarr í fjórum hlutum sem nefnist Ferðalög. Jón var gestur Mannlega þáttarins á Rás 1 þar sem hann sagði frá uppvextinum, pönkinu og rithöfundadraumnum sem rauðhærðan og lesblindan Jón óraði ekki fyrir að yrði að veruleika. 

Fór á Hlemm í stað þess að mæta í skólann

Það varð að sögn Jóns álitamál þegar hann varð sex ára hvort hann ætti erindi í grunnskóla eins og önnur börn og ekki allir sammála. Hann hafði verið sendur inn og út af barnageðdeild á Dalbraut í rannsóknir og að lokum var það niðurstaða sérfræðinga að hann gæti farið í skóla. Hann gekk því í Fossvogsskóla til tólf ára aldurs og undi sér ágætlega. Þegar hann byrjaði hins vegar í gagnfræðaskóla fór honum fljótt að finnast skólinn svo óbærilegur að hann forðaðist að láta sjá sig. „Ég fór niður á Hlemm því ég þorði ekki í skólann, ég skildi lítið sem fór fram og varð fyrir aðkasti.“

Foreldrar hans brugðu á það ráð að senda hann langt í burt frá borginni svo hann flutti tímabundið á Núp í Dýrafirði. Þar leið honum betur. „Þegar ég kom þangað var ég laus undan áreiti. Það var enginn að lemja mig eða stríða mér en þetta var skemmtilegur kúltúr.“

Byrjaði í Flensborg til að geta verið með Óttari Proppé

Hann lærði þó ekki mikið á dvöl sinni þar og þegar hann kom aftur í bæinn missti hann fótanna aftur.

„Þá var lífið búið að halda áfram í Reykjavík og jafnaldrar mínir voru að fara í framhaldsskóla en ég hafði engan grunn í það. Ég fór líka en bara til að vera í sambandi við vini mína, tók til dæmis eina önn í Flensborg í Hafnarfirði bara til að geta verið með Óttari Proppé.“

En þótt samverustundirnar með Óttari hafi verið gefandi og væntanlega margt að skrafa var hann ekki með á nótunum í náminu að neinu leyti.

Ég lærði ekkert og kláraði engar einingar. Þetta fór allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér, bæði námið og skipulagið. Hvenær ég átti að mæta í tíma og hvenær voru próf flæktist fyrir mér. Það voru alveg próf sem ég hefði getað náð en ég mætti ekki í þau því ég vissi ekki af þeim.

Hélt að rauðhært fólk fengi aldrei að vera með í neinu

En Jón fann flóttaleið sem hentaði honum vel. Hann fór að hlusta á pönk og klæða sig eins og pönkari. „Pönkið var eitthvað sem ég gat verið hluti af því ég var ekki hluti af neinu, ekki fjölskyldunni minni og ekki jafnöldrum.“ Því þegar hann sá fyrst myndskeið af Sex Pistols á tónleikum áttaði hann sig á því að það væri pláss fyrir menn eins og hann í pönkinu. „Þeir voru að syngja Anarchy in the UK og það sem mér fannst mest heillandi var að söngvarinn var rauðhærður. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá það því ég hélt að rauðhært fólk væri afskrifað og fengi aldrei að vera með í neinu.“

Var kallaður Rauðskallur Brennivínsson

Jón er enda eina rauðhærða manneskjan í fjölskyldunni og var mörgum svo brugðið þegar hann kom í heiminn og ljóst varð í hvað stefndi að amma hans brast í grát. „Svo var maður kallaður Rauðskallur Brennivínsson og svona, spurður: Af hverju ertu með svona ljótt hár? Þetta var bara ömurlegt,“ rifjar Jón upp. En Johnny Rotten var rauðhærður og Jón þurfti ekki að vita meira um sveitina eða tónlistina. „Mér var sama um allt annað. Svo fór ég að taka eftir því að það var mikið af rauðhærðu fólki í pönkinu.“

Áttaði sig á að hann væri fínn leikari

Hann leit ekki bara upp til pönkara heldur rithöfunda líka en hann taldi litlar líkur á að þar væri á ferð hópur sem hann gæti tilheyrt. Annað hefur sannarlega komið á daginn. „Pabbi var mikill bókakall og átti mikið bókasafn. Hann hafði dálæti á mörgum rithöfundum og mig langaði að verða rithöfundakall þegar ég yrði stór en fannst það útilokað því ég gat ekki skrifað.“ En hann varð fyrir andlegri vakningu á sviði í íþróttahúsinu á Núpi þegar hann hafði verið valinn til að leika hlutverk í leikriti og áttaði sig á því að hann gæti vel leikið og eflaust margt fleira líka. „Þarna fann ég að ég átti ekki í erfiðleikum með að muna texta og vita hvað ég ætti að gera.“

Töfrar í útvarpsleikhúsi

Og Jón varð ekki bara rithöfundur og leikskáld heldur einn fremsti skemmtikraftur þjóðarinnar og gegndi einnig, eins og fólk man, embætti borgarstjóra Reykjavíkur. Nú eru liðin tuttugu ár síðan Jón skrifaði sitt fyrsta leikrit og á skírdag verður nýtt útvarpsleikrit eftir hann frumflutt á Rás 1. „Mér finnst útvarpsleikrit hafa einhverja töfra. Ég hlusta mikið á það og fannst rosalega gaman að fá tækifæri til að gera þetta,“ segir hann hróðugur. 

Nú er aðeins rúm vika í frumflutning á páskaleikritinu FERÐALÖG eftir Jón Gnarr  Leikritið er í fjórum hlutum en fyrsta hluti er á dagskrá á skírdag klukkan 15. Með aðalhlutverk fara Eggert Þorleifsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Þórey Birgisdóttir RÚV
 Mynd: Nú er aðeins rúm vika í frum - RÚV
Með aðalhlutverk fara Eggert Þorleifsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Þórey Birgisdóttir.

Leikritið heitir sem fyrr segir Ferðalög og gerist á óræðum tíma þegar Alþingi hefur samþykkt ný lög um ferðalög Íslendinga til útlanda. Með helstu hlutverk fara Eggert Þorleifsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Þórey Birgisdóttir. „Það er óhætt að segja að þau fari algjörlega á kostum,“ lofar leikskáldið. 

Fáránleg tímasetning á leikriti um ferðatakmarkanir

Þrjár manneskjur í nefnd og ferðatakmarkanir er þó eins og Íslendingar þekkja á tímum heimsfaraldurs, ferðabanns og upplýsingafunda, alls ekki langt frá raunveruleikanum. „Já þetta er absúrd,“ viðurkennir Jón um tímasetninguna. „Ég var búinn að skrifa þetta leikrit löngu áður en þetta gekk yfir og það kemur á alveg rosalega sérstökum tíma í umræðunni um hvenær og af hverju má hefta ferðafrelsi okkar. Þetta er bara sérkennilega vel við hæfi.“ En þótt leikritið sé fyrst og fremst gamanleikrit er líka hugsun á bak við það. „Þetta er alls konar bull en einhver pæling líka,“ segir Jón að lokum, og þannig vill hann hafa það.

Rætt var við Jón Gnarr í Mannlega þættinum.

Tengdar fréttir

Leiklist

Erfitt að bakka með rauðkálið á litlu jólunum

Tónlist

Getur stafræn ást verið raunveruleg?

Menningarefni

Jón Gnarr í hlutverki Sigurjóns Digra