Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umferðarslys á Kjalarnesi - einn fluttur á slysadeild

05.04.2020 - 09:44
Mynd með færslu
Frá vettvangi í morgun. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Umferðarslys varð á Kjalarnesi á níunda tímanum í morgun og var veginum lokað um tíma vegna þess. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var bíl ekið aftan á annan bíl. Einn var fluttur á slysadeild en ekki fást upplýsingar um hvort hann sé alvarlega slasaður.

Mikið kóf og mjög blint hefur verið á Kjalarnesi í allan morgun, líkt og víða annar staðar á landinu.  Vonskuveður gengur nú yfir landið og appelsínugul viðvörun er í gildi á öllu landinu að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, en þar er gul viðvörun. Ekkert ferðaveður er á landinu og fjölmargir vegir eru ýmist ófærir eða lokaðir. 

Björgunarsveitir víða á landinu hafa sinnt útköllum í alla nótt, og hjálpað fólki sem hefur lent í vanda vegna ófærðar.