Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óttast afleiðingar COVID-19 fyrir flóttafólk í Líbíu

05.04.2020 - 04:14
epa07692751 Migrants check the rubble of a destroyed detention center in Tripoli's, Libya, 03 July 2019. according to media reports, At least 44 people killed and 130 were injured after strike hit the Tajoura detention center held at least 600 refugees were attempting to reach Europe from Libya. The parties disputed didn't claimed any responsibility for the attack.  EPA-EFE/STR
Rústir skemmu sem notuð var sem flóttamannabúðir í útjaðri Trípólí. Hluti skemmunnar gjöreyðilagðist í flugskeytaárás hersveita stríðsherrans Haftars sumarið 2019 og minnst 44 flóttamenn fórust.  Mynd: epa
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og hjálparstofnana vara við hættunni sem vofir yfir um 700.000 flóttamönnum og farandfólki á hrakhólum í Líbíu í heimsfaraldrinum, ofan á þær „ólýsanlegu hörmungar sem fólkið hefur þegar mátt þola.

Í úttekt Al Jazeera á aðstæðum flótta- og farandfólks í Líbíu er haft eftir sérfræðingum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að nái COVID-19 farsóttin sér á strik í þeirra hópi verði afleiðingarnar að öllum líkindum skelfilegar. Staðfest smit í Líbíu eru enn fá, aðeins 17 talsins, og eitt dauðsfall hefur verið rakið til veikinnar.

Heilbrigðiskerfið í molum

Raunverulegur fjöldi smita og dauðsfalla er þó á huldu, þar sem borgarastríð geisar í landinu, innviðir eru allir í lamasessi og heilbrigðisþjónustan í molum. Og hún er enn minni við þennan jaðarsetta hóp allslausra útlendinga sem á sér málsvara fáa.

Borgarastríðið, segir talsmaður Flóttamannastofnunar við Al Jazeera, veldur því að Líbía býr við „takmörkuð fjárráð og skort á einfaldasta tækjabúnaði“ og heimsfaraldurinn eykur enn á vandann.

Yfirmaður líbísku sóttvarnastofnunarinnar, Badereldine al-Najar, sagði í viðtali við Reutersfréttastofuna í mars, að landið væri ekki í stakk búið til að takast á við faraldurinn ef svo færi að hann gysi þar upp af krafti.

Hörmulegar aðstæður flóttafólks

Aðstæður almennings hafa farið versnandi ár frá ári frá því að Ghaddafi var steypt af stóli og átök stríðandi fylkinga hófust í landinu, en aðstæður flótta- og farandfólksins eru enn verri. Meirihluti þeirra hefst við í einföldum tjaldbúðum eða skemmum með lítinn eða engan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Þúsundir eru á valdi ótíndra glæpamanna í búðum sem vart verður lýst öðruvísi en sem fangabúðum, þar sem kúgun, mansal, nauðganir og ofbeldi er daglegt brauð.

Allar eru þessar búðir yfirfullar, segir Amira Rajab Elhemali, starfskona Sameinuðu þjóðanna í Líbíu. Fólkið í þeim býr við ómanneskjulegar aðstæður, þar sem hreinlætisaðstaða er í skötulíki og skortur á bæði mat og drykkjarvatni.

„Aðstæðurnar eru skelfilegar,“ segir Elhemali. „Hundruð manna eru lokuð inni í yfirfullum skemmum án aðgangs að almennilegri hreinlætisaðstoðu. Mörg þeirra hafa verið í haldi í marga mánuði eða jafnvel ár. Áhyggjur eru það eina sem þau eiga núna.“

Líbía er eitt 27 landa sem skilgreind hafa verið hvað berskjölduðust gagnvart farsóttum af öllu tagi og Alþjóðheilbrigðisstofnunin segir Líbíu sérlega varnarlausa gagnvart COVID-19. Og enginn hópur þar í landi er varnarlausari en flótta- og farandfólkið, sem vill burt en kemst hvergi.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV