Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Læknir sem gagnrýnir rússnesk stjórnvöld handtekinn

05.04.2020 - 11:26
Mynd með færslu
 Mynd: AlyansVrachey/Twitter
Stjórnvöld í Rússlandi handtóku lækni sem er í forsvari fyrir bandalag óháðra lækna sem gagnrýna stjórnvöld opinskátt. Hún segir stjórnvöld segja ósatt til um fjölda þeirra sem hafa greinst með Covid19-veikina.

Stuðningsmenn Anastasiu Vasilyevu tóku upp á myndband mótmæli hennar og átök við hóp lögreglumanna sem handtóku hana á fimmtudagskvöld. Henni var haldið yfir nótt í fangageymslu en Vasilieva var í bænum Okulovka, 400 kílómetra norður af Moskvu. Hún og samstarfsmenn hennar freista þess nú að koma grímum, hönskum og öðrum búnaði á illa búin sjúkrahús á landsbyggðinni. 

Vasilyeva er sérfræðingur í augnsjúkdómum. Hún hefur verið afar gagnrýnin á viðbrögð stjórnvalda við Covid19-farsóttinni og segir að allar tölur þeirra um fjölda tilfella séu rangar og of lágar. Handtaka hennar hefur virkað sem olía á eld þeirra sem efast um burði rússneska heilbrigðiskerfisins til þess að bregðast við útbreiðslu veikinnar.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa gagnrýnt handtöku Vasilievu og átalið rússnesk stjórnvöld fyrir að leggja meiri áherslu á að stöðva gagnrýni en útbreiðslu farsóttarinnar.

Hópur lækna við sjúkrahús í Sankti-Pétursborg sendi myndband út um helgina þar sem þeir biðluðu til almennings um að aðstoða þá við að útvega nauðsynlegan búnað svo þeir gætu sinnt sjúklingum. Maria Bakhldina, yfirlæknir spítalans, sagði í útvarpsviðtali stuttu síðar að kvartanir læknanna væru uppspuni.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV