Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áfallið með ólíkindum og mögulega verra en bankahrunið

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Gylfi Magnússon, hagfræðingur og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands segir efnahagsáfallið vegna faraldursins að mörgu leyti erfiðara en bankahrunið. Tjón samfélagsins geti numið mörg hundruð milljörðum.

Hann segir aðgerðir ríkisvaldsins til að draga úr efnahagslegum afleiðingum faraldursins ágætar sem fyrstu viðbrögð. Ekki hafi verið hægt að stöðva þessa bylgju með neinum aðgerðum hins opinbera. 

„Áfall af þeim toga sem við erum að fást við núna, þar sem er hreinlega ekki hægt að eiga í viðskiptum með margskonar vörur og þá sérstaklega þjónustu, ríkið hefur ekki góð tæki til að bregðast við því eða stöðva það,“ segir Gylfi. „Og þá verður frekar að reyna að lágmarka tjónið og reyna sjá til þess að fyrirtækin lifi það af og auðvitað starfsmennirnir og heimilin líka,“ segir hann.

Tjónið gæti numið mörg hundruð milljörðum króna

Ef samdrátturinn vari í marga mánuði muni tjónið nema mörg hundruð milljörðum króna. Hann segir að vægi ferðaþjónustu hér á landi þurfi ekki endilega að þýða meiri samdrátt hér en í öðrum löndum því víða hafi framleiðsla dregist verulega saman vegna minni neyslu á heimsvísu.

Gylfi segir skynsamlegt að fara að undirbúa frekari aðgerðir og kortleggja þær. Engin uppskrift sé þó að því hvernig best sé að takast á við ástandið því það sé án fordæma. Hagkerfið hafi hrunið á miklu skemmri tíma nú en eftir fjármálakrísuna 2008. Þá hafi samdrátturinn komið fram á rúmu ári en nú hafi hagkerfið hrunið á örfáum vikum og sambærilegur samdráttur eða meiri sé þegar kominn fram. Grunnstoðir samfélagsins séu þó sterkari núna, skuldastaða ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila betri. 

„En áfallið er líka alveg með ólíkindum þannig að að sumu leyti er þetta miklu erfiðara áfall heldur en það sem kom fyrir áratug,“ segir hann.

Þarf vítamínsprautu þegar faraldrinum lýkur

Hefðbundin tæki sem Seðlabankinn hafi til að örva hagkerfið dugi skammt meðan allir séu í raun læstir heima. Þeim verði hægt að beita undir lok faraldursins, sem og verkfærum í ríkisfjármálum, að keyra upp opinbera fjárfestingu sem er ein leið til þess að ýta undir eftirspurn þegar skortur sé á henni. „Ég reikna með að það verði allt saman gert. En það þýðir ekkert að gera það núna, það verður að bíða þar til atvinnulífið er orðið starfhæft aftur. Þá verður hægt að gefa því vítamínsprautu með aðgerðum bæði í ríkisfjármálum og peningamálum,“ segir Gylfi.

Veiruskaðabætur fyrir einyrkja

Frekari aðgerða af hálfu ríkisins sé þó þörf til skemmri tíma. Hugsanlega þurfi ríkið að taka yfir stærri hluta launa fólks til að forða gjaldþrotum og koma með fé inn í fyrirtæki. Svo þurfi að huga að fleiri hópum, til að mynda einyrkjum sem ekki er heimilt að starfa núna, svo sem hársnyrtifólki.

„Kannski þarf ríkið einfaldlega  að áætla tjón þessara aðila og koma með einhverjar veiruskaðabætur. Það þarf auðvitað að hugsa það í þaula en ég sé fyrir mér að eitthvað þessu líkt verði að koma, bara einfaldlega til þess að hægt sé að dreifa tjóninu tiltölulega jafnt. Og það gerum við í gegnum hið opinbera, í staðinn fyrir að sumir lendi í verulegum vandræðum og aðrir sleppi tiltölulega óskaddaðir. Það er auðvitað ekki sanngjarnt,“ segir Gylfi.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir