Var rekinn heim til sín af lögreglu

Mynd: RÚV / RÚV

Var rekinn heim til sín af lögreglu

04.04.2020 - 17:30
Birkir Bjarnason landsliðsmaður í fótbolta segir erfitt að hugsa um fótbolta á meðan um þúsund manns deyja á hverjum degi í næsta nágrenni við hann. Birkir hefur varla mátt fara út úr húsi í fjórar vikur og var rekinn inn til sín af lögreglu um daginn.

Birkir leikur með Brescia í ítölsku A-deildinni, en þegar hlé var gert á keppni í deildinni snemma í mars reyndi Birkir að komast heim til Íslands, en fékk neitun frá félagi sínu. Hann hefur því verið fastur heima hjá sér síðan.

„Sumir dagir eru erfiðari en aðrir, þetta búinn að vera langur tími, komið upp í fjórar vikur núna sem maður er búinn að vera svolítið fastur inni hjá sér og ekki mikið að fara út. Fyrstu vikurnar var þetta aðeins frjálslegra  og maður reyndi að fara aðeins út í göngutúra, setjast á bekk og lesa aðeins og fá sér smá ferskt loft. En það er ekki vel séð hér á Ítalíu, maður er bara skikkaður inn ef maður er mikið úti.“ segir Birkir.

Og Birkir komst í hann krappann einn daginn þegar hann settist fyrir utan húsið sitt þegar reglur voru hertar.

„Löggan stoppaði og skipaði mér inn. Það er ekkert annað hægt en að hlýða því og gera það.“

Erfitt að hugsa um fótbolta

Segja má að Birkir sé staddur akkúrat þar sem heimsfaraldurinn hefur farið harðast yfir.

„Ég er náttúrulega bara hálftíma frá Bergamo þar sem þetta er allra verst og ég var að heyra núna um daginn að Brescia er bær númer tvö yfir flesta látna og flesta smitaða. Þannig að ég er svo sem í versta hlutanum af Ítalíu.“

Forseti Brescia sagði í vikunni að ef keppni hæfist aftur í ítölsku deildinni myndi liðið gefa alla sína leiki, það væri ekki rétt gagnvart fólkinu á svæðinu að hefja leik aftur eins og ekkert hefði í skorist. Og Birkir veit heldur ekkert hvað verður og hvort deildin fari af stað á ný.

„Mér finnst svolítið erfitt að hugsa um fótbolta á þessum dögum, sérstaklega þegar maður heyrir að það sé komið upp í þúsund látnir á dag hér á Norður-Ítalíu. Það er svolítið erfitt að sjá hvað sé að fara að gerast á næstunni,“ segir Birkir.

Viðtalið við Birki má sjá í spilaranum að ofan.