Söfnuðu fyrir tveimur öndunarvélum:„Þetta snertir alla“

04.04.2020 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða - Facebook
Söfnunarátak þriggja kvenna á Vestfjörðum, sem hófst síðdegis í gær, hefur skilað rúmlega sjö milljónum króna sem dugar fyrir tveimur ytri öndunarvélum. Við finnum sterkt að það eru allir í þessu saman og tilbúnir til að leggja lið, segir Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg, ein af aðstandendum söfnunarinnar.

Alls eru 27 með COVID-19 smit á Ísafirði og í Bolungarvík og 317 manns á Vestfjörðum eru í sóttkví. Samkomubann er í gildi og mega ekki fleiri en fimm vera saman á einum stað. „Það kom upp smit í síðustu viku og síðan þá hefur það farið eins og eldur í sinu og þetta snertir alla,“ segir Tinna. 

Hafa staðið fyrir söfnunum frá árinu 2016

Tinna segir að hún hafi ásamt Hólmfríði Bóasdóttur og Steinunni Guðnýju Einarsdóttur stofnað félagið Stöndum saman Vestfirðir fyrir fjórum árum og síðan þá safnað fyrir tækjum fyrir sjúkrahúsið á Ísafirði, hjartastuðtækjum í lögreglubíla og björgunarskip og slökkviliðshjálmum svo eitthvað sé nefnt. Í janúar söfnuðu þær til styrktar björgunarsveitinni á Flateyri eftir snjóflóðin þar og afhentu afraksturinn í síðustu viku.

Tinna segir að þær hafi síðan í gær haft samband við Gylfa Ólafsson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, og spurt hann hvað vantaði. „Hvort það væri ekki ráð að fara að safna fyrir einhverju og báðum um óskalista.“  Tvær ytri öndunarvélar hafi reynst vera efst á listanum, ein fyrir Patreksfjörð og ein fyrir Ísafjörð. 

Öndunarvélar efst á óskalistanum

Söfnunin var sett af stað klukkan 16 í gær og skömmu fyrir hádegi hafði takmarkið náðst; alls höfðu safnast 7,5 milljónir króna sem dugar fyrir tveimur vélum. „Við höfum sett okkur í samband við Gylfa og ef það safnast áfram þá förum við í að safna fyrir því næsta á óskalistanum,“ segir Tinna, sem segist ekki vita hvað það væri en að keypt verði það sem mest þörf sé fyrir. 

Meirihluti þess sem safnaðist kom frá einstaklingum, segir Tinna, en félagið hafi einnig fengið góð viðbrögð frá fyrirtækjum, starfsmannafélögum, kvenfélögum og brottfluttum Vestfirðingum. „Við finnum sterkt að það eru allir í þessu saman og hugsa til okkar. Það eru allir tilbúnir að leggja þessu lið. Það er ekki asnalegt að leggja inn lága upphæð. Þegar við leggjumst öll á eitt þá getum við gert ótrúlega hluti.“

Tinna segir að um klukkan tíu í morgun hafi verið ljóst að takmarkið myndi nást. Hún hafi því haft samband við tengilið þeirra á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og óskað eftir því að vélarnar yrðu pantaðar. Aðspurð hversu langan tíma það eigi eftir að taka að fá þær afhentar segir hún það ekki víst. „Það tekur eðlilega smá tíma.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi