Nærri eitt dauðsfall á 2,5 mínútna fresti í New York

04.04.2020 - 12:20
Mynd: EPA-EFE / EPA
Í gær lést nærri einn einstaklingur á tveggja og hálfrar mínútu fresti úr COVID-19 sýkingu í New-York ríki í Bandaríkjunum.Andrew Cuomo ríkisstjóri segir að ekki verði nógu margar öndunarvélar tiltækar á næstu dögum en Bandaríkjaforseti segist halda að nóg sé til af þeim.

 

1480 manns létust úr COVID-19 sýkingu í Bandaríkjunum á einum sólarhring, samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins háskólanum. Greindum smitum fjölgar nú um tugi þúsunda daglega, í gær voru þau um 32 þúsund. Enn eru tilfellin langflest í New York-ríki, yfir hundrað þúsund. Í gær lést nærri einn einstaklingur á tveggja og hálfrar mínútu fresti. Staðfest dauðsföll í ríkinu eru yfir 3200. 

Andrew Cuomo ríkisstjóri segir að eftir nokkra daga verði New York uppiskroppa með öndunarvélar. Donald Trump Bandaríkjaforseti var spurður hvort hann ætlaði að sjá til þess að ríkið fengi nóg af öndunarvélum. „Við höldum reyndar að hann hafi fengið nóg. Við ætlum að athuga þetta,“ svaraði Trump og bætti svo við að síðustu ár hefði New York getað pantað helling af öndunarvélum en kosið að gera það ekki. 

Ætlar ekki að fara eftir tilmælum sjálfur

Á blaðamannafundi í gær tilkynnti Trump um tilmæli þess efnis um að fólk gangi með klút eða grímu fyrir vitum. Hann ætlar þó ekki að fara eftir tilmælunum sjálfur. „Að klæðast andlitsgrímu þegar ég tók á móti forsetum, forsætisráðherrum, einræðisherrum, kóngum og drottningum, ég sé það ekki fyrir mér,“ sagði Trump. 
 

 

epa08342200 US President Donald J. Trump (L) listens to Vice President Mike Pence speaking at a press briefing on the COVID-19 pandemic with members of the Coronavirus Task Force at the White House in Washington, DC, USA, on 03 April 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pence varaforseti hafa verið í fararbroddi á fréttamannafundum.
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi