Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölmargir ökumenn í vanda: „Ekkert ferðaveður hérna“

04.04.2020 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa þurft að aðstoða fjölda ökumanna sem hafa lent í vandræðum vegna óveðursins sem nú gengur yfir svæðið. Ekkert ferðaveður er frá Pétursey að Skógum, að sögn björgunarsveita.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir landið allt, nema höfuðborgarsvæðið, en þar er gul viðvörun í gildi. Viðvörunin gildir fram á aðfaranótt mánudags. En veður er þegar farið að versna mikið víða á landinu. Veðrið er hvað verst á Suðurlandi og þar hafa fjölmargir ökumenn lent í vandræðum. Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal, segir að nóg hafi verið að gera í dag.

COVID veldur vanda

„Já það er búið að vera töluvert síðan um hádegi í dag að aðstoða bæði Íslendinga og ferðamenn, en mest megnis Íslendinga. Það er bara ekkert ferðaveður hérna frá Pétursey og út að Skógum er það allra verst hjá okkur. Við erum búin að bjarga 15-20 bílum og erum búin að fá aðstoð frá fleiri björgunarsveitum,“ segir Orri.

Og eru menn aðallega að festa sig?

„Já og skyggnið er þannig að það er bara ekkert ferðaveður. Þannig að fólk er bara að ramba út af veginum og svoleiðis.“

Er ekki búið að loka þjóðveginum?

„Jú það er svolítið síðan lokun var auglýst og það eru komnir lokunarpóstar og lokað fyrir alla umferð.“

Þannig að ykkar verkefnum ætti að fara að ljúka?

„Vonandi. En COVID hjálpar okkur ekki. Við erum með einhverja sérútbúna bíla sem þurfa vera í því að flytja fólk úr bílum sem við þurfum að skilja eftir. Þannig að þetta eru erfiðar aðstæður,“ segir Orri.

Bálhvasst í Eyjum

Í Vestmannaeyjum hefur verið bálhvasst, og á Stórhöfða fór vindhraðinn í 40 metra á sekúndu í dag. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Eyjum, segir að þar sé skítabræla. Búið er að loka fyrir umferð um Þrengsli vegna veðurs.

Þá er ekkert ferðaveður á Tröllaskaga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og skyggni er lítið sem ekkert. Ófært er á Siglufjarðarvegi og verður vegurinn ekki opnaður í dag. Á Vestfjörðum er lokað um Þröskulda, Klettsháls, Gemlufallsheiði og Steingrímsfjarðarheiði.

Fréttin hefur verið uppfærð.