Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eymd og vanlíðan í dýrðarholu karlmennskunnar

Mynd: Óskar Ámundason / .

Eymd og vanlíðan í dýrðarholu karlmennskunnar

04.04.2020 - 08:40

Höfundar

„Ég einblíni helst á skúlptúr sem verður oft að gjörningi eða einhvers konar vídjólist. En það er einhvern veginn rýmið og þetta þrívíða element sem er alltaf til staðar, uppsetningin og miðlunin,“ segir Ólöf Bóadóttir, einn 19 listamanna sem eiga verk á sýningunni Primate Climate á Korpúlfsstöðum.

Listamennirnir fást á fjölbreyttan hátt við mannlega hegðun og áhrif hennar á umhverfi sitt. „Við útskrifuðumst öll úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands síðasta sumar. Sýninguna bar þannig að að Páll Haukur Björnsson myndlistarmaður og stjórnarmaður í Sambandi Íslenskra Myndlistarmanna hafði samband við mig fljótlega eftir útskriftarsýninguna og bauð okkur þetta rými til að gera hvað sem er í rauninni og úr varð þessi sýning,“ segir Hildur Elísa Jónsdóttir sýningarstjóri. 

Um hvað má fjalla?

Á opnunardeginum fluttu Ólöf og Óskar Ámundason gjörning. „Við vörpum ljósmynd af flóttamönnum í báti á Miðjarðarhafinu upp á viðarplanka sem við höfum málað hvíta. Óskar skýtur leirdúfum með leirdúfukastara og ég rétti honum hverja leirdúfuna á fætur annarri,“ segir Ólöf. Gjörningurinn hefur verið fluttur áður, en að sögn Ólafar skynjar fólk hann á býsna ólíka vegu. „Fólk hefur sagt okkur að það fari fram og til baka í því hvað þeim finnst um þetta og geti orðið pirrað á því að við séum að setja okkur í þessa stöðu, leyfa okkur að fjalla um þetta. Það flakkar milli þess og svo að finnast jákvætt að deila á þetta. Við höfum lika verið að fjalla um þessa forréttindastöðu og hvað maður má fjalla um í þeirri stöðu.“

Einhvers konar útrás

Utan gjörningsins á Óskar tvö verk á sýningunni. Hann ólst upp meðal listamanna og hans eigin áhugi á listum kviknaði snemma. „Ég kem úr mikilli listafjölskyldu, báðir eldri bræður mínir eru myndlistarmenn, pabbi er grafískur hönnuður og mamma mín er mjög mikil listáhugakona og systir mín líka. Og makar okkar allra bræðranna eru líka myndlistarmenn, þannig að þar er mikil gróska. Ég hef einhvern veginn alist upp við þetta og á heimilinu mínu er mikið talað um myndlist. Mér var einhvern veginn, ég ætla ekki að segja þröngvað út í þetta, en ég tek þessa leið að byrja að læra myndlist. Ég finn að ég hef eitthvað upp á að bjóða og fæ úr þessu einhvers konar útrás. Mér finnst mjög gaman að skapa og finna að það sé alltaf eitthvað að gerast, eitthvað að bruggast inni í hausnum sem ég vil láta út annað hvort fyrir mig eða aðra,“ segir hann.

Karlmennska til sýnis

Annað verka Óskars á sýningunni nefnist Dýrðarhola fyrir lítinn eldri mann með stórt typpi. „Fyrir mér er þetta einhvers konar táknmynd feðraveldisins eða mín innan þess. Þetta er kannski hin týpíska gerð af karlmanni sem er ekki mikið að bjóða upp á einlægni eða sína innri kosti og getu heldur er meira að henda út þessari karlmennsku sinni, það kannski það eina sem hann hefur upp á að bjóða. En aftur á móti þá er hann lokaður í einhvers konar kassa og sýnir þetta eðli sitt. En þegar maður horfir á hann að utan fyrir gangandi vegfarendur þá sér maður einhvers konar eymd eða vanlíðan. Ég held að margir karlmenn geti tengt við þetta, þar á meðal ég.“

Hitt verk Óskars samanstendur af hárkollu sem hangir úr lofti og hárblásara sem að henni beinist. „Þetta er negatífur gjörningur, performans af mér. Í raun og veru allt það sem ég er ekki, sem er hárið, vegna þess að ég byrjaði að missa hárið þegar ég var tvítugur, þá fór það að þynnast rækilega. Það tók sinn toll og ég vann mjög mikið með það sem efnivið: að missa hárið, hækkandi hárlínu og allt þetta.Hér þá myndast einhvers konar spenna og sú spenna er einhvers konar gjörningur, dans, söngur eða eitthvað svoleiðis.“

Tengdar fréttir

Myndlist

Innblásið, þroskandi og ógeðslega kósí

Myndlist

Í blómagarði Eggerts Péturssonar

Myndlist

Semur leiðarstef um ljósmyndasöguna fyrir Metropolitan

Myndlist

„Steina, hvaða orgía var þetta?“