Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lögregluofbeldi og einræðistilburðir á óvissutímum

Mynd: EPA-EFE / EPA
Leiðtogar nýta tækifærið til að herða tökin um valdataumana. Lögregla beitir borgara ofbeldi og rétturinn til tjáningar og friðhelgi einkalífs víkur fyrir boðum og bönnum. Mannréttindabrot eru áhyggjuefni nú þegar farsótt breiðist um heiminn og fjöldi ríkja hefur lýst yfir neyðarástandi. 

Slysaskot í Kenýa

Eftir því sem veiran nær meira flugi færist aukinn þungi í aðgerðir stjórnvalda víða um heim. Nú er farið að bera meira á lögregluofbeldi. Oft hafa lögreglan og herinn það hlutverk að fylgja eftir skipunum yfirvalda vegna COVID-19, tryggja að fólk virði samkomubönn og útgöngubönn. Sums staðar er illa farið með þetta vald. 

Á þriðjudag stóð Yasin Moyo, þrettán ára unglingspiltur, úti á svölum á heimili sínu í Nairobi, höfuðborg Kenýa. Á götunni fyrir neðan voru sveitir lögreglumanna að fylgja eftir útgöngubanni vegna kórónuveirufaraldursins. Lögreglumennirnir báru skotvopn og skutu út í loftið til að reka fólk inn.  Allt í einu lá Yasin Moyo í blóði sínu. Lögregluyfirvöld sendu fjölskyldunni samúðarkveðjur, þetta hafi verið slysaskot. Lögreglan í Kenýa hefur beitt táragasi gegn borgurum og barið þá með kylfum. Pabba Yasin, Hussein Moyo, ofbýður harkan. Lögreglumenn öskri á fólk og berji það eins og skepnur.

Brauð eða byssukúlur stjórnvalda

Svipað er uppi á teningnum á Filippseyjum. Rodrigo Duterte, forseti, hefur síðastliðin ár fyrirskipað lögreglunni að skjóta fíkla, í blóðugu stríði gegn fíkniefnum. Nú hefur hann fyrirskipað öryggissveitum að skjóta þá sem ekki virða ferða- og samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins. Helmingur landsmanna sætir útgöngubanni og í þeim hópi eru margir sem misst hafa lífsviðurværi sitt vegna aðgerðanna. Hingað til hafa þeir sem brjóta útgöngubannið verið handteknir, læstir inni í hundabúrum eða látnir sitja langtímum saman úti í óbærilegum hita. Fyrir suma stendur valið nú á milli þess að svelta heima eða fara út og hætta á að verða fyrir byssukúlum stjórnvalda. 

Spítukallar og klórlausn í augun

Dagblaðið Indian Express greinir frá því að öryggisverðir í Púnjab-fylki á Indlandi hafi skipað farandverkamönnum sem voru á heimleið frá Delí að fara út í kant og úðað á þá klórlausn sem ertir húðina, augun og lungun. Annars staðar í fylkinu var fólk sem braut reglur um sóttkví niðurlægt, látið gera hnébeygjur og syngja: Við erum óvinir samfélagsins. VIð getum ekki haldið okkur heima. Í Paragvæ lét lögreglan fólk sem braut gegn útgöngubanni hoppa eins og spítukalla og ógnaði því með rafbyssum. Myndbönd sem lögreglan í Paragvæ birti af aðgerðunum vakti hrifningu innanríkisráðherrans, Euclides Acevedo, sem hrósaði lögreglumönnunum fyrir frumlegheit. 

Mannréttindabrot fylgt frá upphafi

Mannréttindabrot hafa verið fylgifiskur COVID-19 faraldursins frá upphafi. Fyrst fór að bera á ritskoðun. Kínversk stjórnvöld þögguðu niður í læknunum sem fyrst vöktu athygli á nýrri lungnasýkingu í Wuhan-borg. Sögðu þá dreifa falsfréttum og áróðri. Kínverskir fréttamenn hurfu sporlaust og ógrynni efnis á samfélagsmiðlum var eytt. Næst tók við mismunun og rasismi. Í árdaga faraldursins var talað um Wuhan-veiruna. Í Evrópu voru asískir matsölustaðir sniðgengnir, nemi frá Singapúr varð fyrir líkamsárás í London.

Aðgerðir skoðaðar í baksýnisspeglinum 

epaselect epa08222525 Buses carrying some 400 US citizens for repatriation leave the Daikoku Pier Cruise Terminal in Yokohama, south of Tokyo, Japan, early 17 February 2020. The US repatriated some 400 American citizens who had been aboard the 'Diamond Princess' cruise ship, which was quarantined amid the ongoing epidemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
Diamond Princess við bryggju í Yokohama. Mynd: EPA-EFE - EPA
Diamond Princess við höfn í Yokohama, suður af Tókíó.

Ógnin er ný, stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafa þurft að taka ákvarðanir með hraði og stundum hefur mannréttindavinkillinn ekki komið til tals fyrr en eftir á. Var til dæmis rétt af japönskum stjórnvöldum að halda hundruðum eldri borgara vikum saman í sóttkví á skemmtiferðaskipinu Diamond princess? Sumum einum í gluggalausum klefum. Urðu aðgerðirnar jafnvel til þess að fleiri sýktust en ella? Já, viðurkenna yfirvöld í Japan núna, kannski

Hvetja stjórnvöld til að huga að viðkvæmum hópum

Sums staðar ógna aðgerðir stjórnvalda rétti fólks til frjálsrar tjáningar og friðhelgi einkalífs. Ekki njóta allir réttar til heilbrigðisþjónustu og vegna útgöngubanna komast milljónir barna ekki í skóla. Mannréttindavinklarnir eru margir og fjölmargir hópar sem mannréttindasamtök hvetja stjórnvöld ríkja heims til að huga sérstaklega að í viðbúnaðaráætlunum sínum. Svo sem fangar, heimilislausir, fátækt fólk, flóttamenn og  farandverkamenn. 

Orbán og Sen grípa tækifærið

Víða hefur verið lýst yfir neyðarástandi og á slíkum tímum nota sumar ríkisstjórnir tækifærið og herða takið um valdataumana, í byrjun vikunnar samþykkti ungverska þingið að herða refsingar við því að breiða út misvísandi upplýsingar. Fjölmiðlamenn sem flytja fréttir sem stjórnvöld telja ósannar geta átt yfir höfði sér fangelsisvist. Þingið færði líka aukin völd í hendur forsætisráðherrans Viktors Orbán, hann getur nú stjórnað með tilskipunum um óákveðinn tíma. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lýsti í morgun yfir áhyggjum af þróun mála í landinu. 

Hun Sen, forsætisráðherra Kambódíu sætir líka færis, ný neyðarlög sem leggja á fyrir þingið í vikunni gera hann beinlínis að einræðisherra um óákveðinn tíma, heimila skerðingu á tjáningarfrelsi, félagafrelsi og réttinum til friðhelgi einkalífs. Að mati mannréttindavaktarinnar Human rights watch eru lagadrögin óljós og ekkert sem rökstyður að aðgerðirnar séu nauðsynlegar. 

Flóttastúlka óttast komu veirunnar í búðirnar

Flóttamönnum er sums staðar mismunað. Í Líbanon gilda víða strangari reglur fyrir sýrlenska flóttamenn en aðra íbúa. Að sögn talsmanna mannréttindasamtakanna Human rights watch hafa flóttamennirnir  ekki verið upplýstir nægilega um sjúkdóminn og einkenni hans. Grikkir hafa lýst yfir útgöngubanni og girt yfirfullar flóttamannabúðirnar norður af Aþenu af. Nokkur smit hafa komið upp í búðunum. Í öðrum yfirfullum búðum, Moria-búðunum á Lesbos óttast flóttamenn það versta. Mahtab Moradi, þrettán ára stúlka í búðunum segir í samtali við bandaríska fréttaþáttinn Newshour að fólk eigi ekki eftir að geta flúið veiruna. 

Upplýsingaráðuneytið vaktar sjónvarpsfréttir 

Tjáningarfrelsi er víða ógnað og ritskoðunin stjórnvalda og rafrænt eftirlit stóraukist. Smitrakningaröpp hinna ýmsu ríkja eru svo misvönduð með tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human rights watch hafa vakið athygli á því hvernig ríkisstjórnir víða um heim hafa þrengt að rétti fólks til tjáningar. Samtökin segja að í Bangladesh hafi stjórnvöld handtekið lækna, fræðimenn og aðgerðasinna sem gagnrýnt hafa viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum á samfélagsmiðlum eða skrifað fræðigreinar sem eru þeim ekki að skapi. Upplýsingaráðuneytið gengur ansi langt í herferð sinni gegn svokölluðum falsfréttum. Teymi á vegum ráðuneytisins fylgist með samfélagsmiðlum og útsendingum allra sjónvarpsstöðva 

Human Rights Watch hafa líka vakið athygli á áhrifum faraldursins á stöðu fanga í Tælandi, erfiðleikum við að uppfylla rétt kvenna til þungunarrofs á Bretlandseyjum og skelfilegum aðstæðum fólks með geðraskanir í Nígeríu, það er sumt vistað á vanbúnum spítölum, í miklum þrengslum, hlekkjað niður mánuðum, jafnvel árum saman án hreinlætisaðstöðu. Sjúkdómurinn ógnar þessum hópum sérstaklega og samtökin hvetja stjórnvöld til að láta þá ekki gleymast. 

Deyja heima því þau óttast reikninginn

Skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu er svo stórt vandamál, líka á Vesturlöndum. Hár heilbrigðiskostnaður ógnar 28 milljónum bandaríkjamanna, sem ekki eru sjúkratryggðir. Kostnaður við veirupróf og sjúkrahússmeðferð hleypur á milljónum króna. Þegar hafa borist fregnir af dauðsföllum fólks sem neitaði sér um sjúkrahússmeðferð af ótta við að geta ekki borgað reikninginn. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt áherslu á að ríki veiti fólki lífsnauðsynlega þjónustu óháð tryggingum, það sé þeirra ábyrgð

epa08337307 Paramedics bring a patient into the emergency room entrance of the Wyckoff Heights Medical Center in Brooklyn, New York, USA, 01 April 2020. New York City is still the epicenter of the coronavirus outbreak in the United States and there are continuing concerns that the health care system will be unable to handle the volume of COVID-19 patients.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjúkraflutningamenn flytja sjúkling á spítala í Brooklyn, New york.

Viðskiptaþvinganir eigi ekki að bitna á almenningi

Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna segir mikilvægt að ríki heims setji mannréttindi í fyrsta sæti í baráttunni við sjúkdóminn og styðja við þá hópa sem verða illa fyrir barðinu á aðgerðum.

Þá segir hún að hafa verði í huga að mismunun og rasismi séu jafn smitandi og banvæn og Covid-19. Bachelet hvetur ríki heims til að lyfta viðskiptahömlum á nauðsynlegum hlífðarbúnaði og lækningatækjum. Hún hefur áhyggjur af áhrifum slíkra banna á heilbrigðiskerfið í Íran, Norður-Kóreu, Simbabve, Venesúela og Kúbu. Almenningur í ríkjunum eigi ekki að þurfa að gjalda fyrir stefnurnar sem viðskiptabönn beinast að á þessum tímum. 

Aðgerðirnar megi ekki ganga úr hófi fram

Það eru allir meðvitaðir um það að aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu farsóttarinnar bitna að einhverju leyti á frelsi einstaklingsins, allir þurfa að færa einhverjar fórnir til skamms tíma en Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt ríki til að gæta hófsemi í aðgerðum og tryggja að þær mismuni ekki ákveðnum hópum í samfélaginu. Oft bitna harðar aðgerðir og refsingar nefnilega verst á þeim sem höllustum fæti standa. Farandverkafólki sem þarf að ganga langar leiðir úr borginni heim í þorpið sitt, þeim efnaminni sem mega ekki við því að hætta að vinna. Sums staðar hafa stjórnvöld ekkert gert til að styðja við þessa hópa. Mannréttindasamtökin Human rights watch hvetja stjórnvöld til að hafa mannvirðingu og gagnsæi að leiðarljósi, aðgerðir þurfi að vera tímabundnar, studdar vísindalegum gögnum og í samræmi við ógnina. Það megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV