Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Listahátíð í Reykjavík ekki aflýst

Mynd með færslu
 Mynd: Andrej Vasilenko-5 - Hrafnhildur - Listahátíð

Listahátíð í Reykjavík ekki aflýst

03.04.2020 - 09:30

Höfundar

Listahátíð í Reykjavík fer fram í ár, þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn, en með óvenjulegu sniði. Dagskrá hátíðarinnar var birt í dag, alfarið án dagsetninga.

Listahátíð í Reykjavík fagnar fimmtíu ára afmæli í ár. Í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar segir að undirbúningur hafi staðið yfir í hartnær tvö ár og átti hún að fara fram dagana 6.-21. júní. COVID-19-faraldurinn hefur raskað þeim áætlunum líkt og flestu öðru í samfélaginu.

Skipuleggjendur Listahátíðar hafa brugðið á það ráð, í stað þess að aflýsa hátíðinni með öllu, að birta dagskrána í heild sinni á vef hátíðarinnar. Er það gert í samráði við listafólk, samstarfsstofnanir og viðburðastaði. Þar kemur fram hvaða viðburðir verða á hátíðinni í ár, hvaða listafólk er að baki þeim og hvar þeir verða haldnir. Hins vegar er farin sú óvenjulega leið að birta dagskrána alfarið án dagsetninga.

Mynd: Aldís Pálsdóttir / Listahátíð í Reykjavík
Rætt var við Vigdísi Jakobsdóttur listrænan stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík í Víðsjá um fyrirkomulag hátíðarinnar í ár.

Í tilkynningunni segir að Listahátíð 2020 verði haldin, „jafnvel þó það taki heilt ár að koma henni til skila.“ Hver viðburður verði tímasettur þegar öruggt þykir og þegar íslenskt samfélag verður tilbúið til þess að taka við honum. „Í sumum tilfellum gæti það orðið strax í sumar á meðan aðrir viðburðir þurfa að bíða lengur,“ segir þar enn fremur. Á vef hátíðarinnar verður hægt að skrá sig á póstlista fyrir hvern viðburð til þess að missa ekki af því þegar dagsetningar verða tilkynntar.

Þema Listhátíðar 2020 er „heimar“.  Á dagskrá hátíðarinnar er meðal annars ástralskur nýsirkus, danssýningar fyrir ungbörn og myndlist. Til stendur að Víkingur Heiðar Ólafsson flytji verk eftir Debussy og Rameau af nýútkominni hljómplötu á hátíðinni, auk þess sem verk eftir tónskáldið Önnu Þorvalds og myndlistarmanninn Sigurð Guðjónsson verða flutt í stjörnuveri Perlunnar. Einnig stendur til að sigurverk Feneyjatvíæringsins á síðasta ári, Sun & Sea (Marina) verði flutt sleitulaust í tvo daga í röð í porti Listasafns Reykjavíkur, sem verður af því tilefni umbreytt í sólarströnd.

Dagskrá má nálgast á vef Listahátíðar í Reykjavík.